Starfsemi Stofnunar Sigurðar NordalsStofnun Sigurðar Nordals miðlar upplýsingum um íslensk fræði og íslenska menningu

 • Upplýsingasöfnun
  Stofnunin hefur samband við meira en eitt þúsund stofnanir og einstaklinga í öllum heimsálfum og fær upplýsingar frá þeim um kennslu í íslensku máli og íslenskum fræðum og rannsóknir tengdar íslenskri menningu.
 • Upplýsingaþjónusta
  Stofnunin svarar fyrirspurnum um kennslu og kennslugögn í íslensku fyrir útlendinga, íslensk fræði og íslenska menningu.
 • Fréttabréf
  Stofnunin gefur út fréttabréf til að miðla upplýsingum um kennslu og rannsóknir í fornnorrænum og íslenskum fræðum, ráðstefnur og fundi, bækur og tímarit. Það kemur út tvisvar á ári og flytur fréttir bæði frá Íslandi og öðrum löndum. Fréttabréfið er sent stofnunum og fræðimönnum, hvarvetna í heiminum, sem Stofnun Sigurðar Nordals hefur á póstfangaskrá sinni. Jafnframt sendir stofnunin fréttir gegnum tölvupóst.

Stofnun Sigurðar Nordals eflir og kynnir rannsóknir í íslenskum fræðum

 • Ráðstefnur, fundir og fyrirlestrar
  Stofnunin gengst fyrir ráðstefnum, umræðufundum, og fyrirlestrum um íslensk fræði eða tekur þátt í undirbúningi þeirra til að gefa fræðimönnum, bæði innlendum og erlendum, tækifæri til að kynna rannsóknir sínar og skiptast á skoðunum. Árlega stendur hún fyrir Sigurðar Nordals fyrirlestri á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals, 14. september.
 • Bókaútgáfa
  Stofnunin stendur fyrir útgáfu rita um íslenska menningu. Hún gefur út fyrirlestra sem fluttir hafa verið á fræðaþingum þeim sem hún hefur staðið fyrir. Ritraðir stofnunarinnar eru tvær, rit Stofnunar Sigurðar Nordals og smárit.

Stofnun Sigurðar Nordals kynnir íslenska menningu og skapar umræðu um stöðu hennar

 • Menningarkynning
  Stofnunin stuðlar að kynningu á íslenskri menningu erlendis, einkum í samráði við sendikennara og aðra háskólakennara í íslensku og íslenskum fræðum.
 • Ráðstefnur og fundir
  Stofnunin stendur fyrir þingum og umræðufundum um einkenni og stöðu íslenskrar menningar og um miðlun hennar erlendis.

Stofnun Sigurðar Nordals styður kennslu í íslensku fyrir útlendinga

 • Íslenskunámskeið
  Stofnunin gengst fyrir sumarnámskeiðum í íslensku máli og íslenskum fræðum í samvinnu við heimspekideild Háskóla Íslands.
 • Sendikennsla
  Stofnunin hefur forgöngu um kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis, hefur umsjón með sendikennslu í íslensku og annast þjónustu við sendikennara.
 • Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum
  Stofnunin hefur samvinnu við erlenda aðila, einkum á Norðurlöndum, um hver þau verkefni sem falla undir hlutverk stofnunarinnar. Stofnunin á aðild að norrænni samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis. Samstarfsnefndin veitir sendikennurum styrki til menningarkynningar og gengst fyrir ráðstefnum um kennslu í Norðurlandamálum erlendis.

Stofnun Sigurðar Nordals eflir tengsl íslenskra og erlendra fræðimanna, þýðenda og rithöfunda

 • Boð og styrkir
  Stofnunin býður erlendum fræðimönnum til Íslands til að kynna rannsóknir sínar, afla gagna til þeirra eða til að stunda rannsóknir. Jafnframt styrkir hún íslenska fræðimenn til að fara til annarra landa í því skyni að stunda rannsóknir í fræðum sínum og kynna þau.
 • Snorrastyrkir
  Stofnunin annast styrki Snorra Sturlusonar en þeir eru boðnir árlega erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi.
 • Fræðimannsíbúð
  Stofnunin hefur til umráða íbúð sem erlendir fræðimenn, er koma til Ísland til að sinna rannsóknum, geta fengið afnot af.