Merki Stofnunar Sigurðar Nordals

header
Stjórn Stofnunar Sigurðar Nordals samþykkti í tengslum við fimm ára afmæli stofnunarinnar 1991 tillögu að merki hennar sem Valur Skarphéðinsson, grafískur hönnuður, hafði gert. Fyrirmyndin var sótt í eins konar fangamark dr. Sigurðar Nordals en hann ritaði S-ið í nafni sínu á þennan hátt. Liturinn í merkinu var valinn í samræmi við bláa litinn sem Háskóli Íslands hafði þá notað.

Eftir að Stofnun Sigurðar Nordals tók til starfa ræddi forstöðumaður við stjórn um að láta gera stofnuninni merki. Þótt stofnunin heyrði undir Háskólann á svipaðan hátt og Orðabók Háskólans þótti eðlilegt að hún kæmi sér upp merki en notaði ekki aðeins merki skólans. Þetta helgaðist nokkuð af því að stjórnunarleg staða stofnunarinnar var þá sú að hún starfaði skv. reglugerð sem menntamálaráðherra hafði sett og ráðherra skipaði formann stjórnar.

Forstöðumaður skoðaði merki ýmissa innlendra stofnana og erlendar bækur með merkjum fyrirtækja, stofnana og félaga í leit að fyrirmyndum. Stjórnin var þó á því að best færi að nota upphafsstafinn í nafni stofnunarinnar svipað og Orðabókin og Íslensk málstöð höfðu gert. Síðan bentu afkomendur Nordals á að Sigurður hefði ritað upphafsstafinn í nafni sínu á sérstakan hátt og ef til vill færi vel á því að nota hann sem fyrirmynd. Forstöðumaður leitaði þá til Magnúsar Guðmundssonar, skjalavarðar Háskólans, og fékk hjá honum nokkur ljósrit af undirskrift Sigurðar Nordals úr fundargerðum Háskólaráðs. Voru þessi ljósrit síðan notuð við gerð merkisins.

Merkið var teiknað í nokkrum útfærslum til að unnt yrði að nota það í mismunandi tilgangi. Þar sem Valur Skarphéðinsson hannaði bréfsefni stofnunarinnar, bækur og bæklinga, var auðvelt að aðlaga það og velja pappír þannig að það færi sem best. Þess var einnig gætt, þegar Hreggviður Ársælsson, grafískur hönnuður, sá um útlit á nýjum vef stofnunarinnar, sem tekinn var í notkun 2005, að merkið færi vel á síðunni enda voru litir valdir í samræmi við það.

Hvernig tengist svo merkið ímynd þeirri sem Stofnun Sigurðar Nordals vildi skapa af starfsemi sinni. Sigurður sagði eitt sinn í fyrirlestri: „Ræktarsemi og frumleikur þurfa að haldast í hendur, – svo að ræktarsemin verði ekki að andlegum dofa, frumleikurinn ekki sinueldur og hégómafálm.“ Merkinu var bæði ætlað að sýna að stofnunin vildi rækta minningu þess sem liðið væri en taka einnig á málefnum líðandi stundar, það átti bæði að vera gamalt og nýtt. Enda gerði stofnunin að kjörorðum sínum: Ræktarsemi og frumleikur.
 

Úlfar Bragason