Skarðsbók Jónsbókar AM 350 fol.

Hvað er Jónsbók?

Árin 1262–1264 gengu Íslendingar Noregskonungi á hönd. Magnús Hákonarson sem tók við konungdómi í Noregi 1263 beitti sér fyrir endurskoðun og samræmingu löggjafar í ríki sínu. Íslendingar fengu lögbókina Járnsíðu 1273 sem byggði að nokkru leyti á Grágás en voru ósáttir við hana og því var samin ný lögbók sem lögtekin var á Alþingi 1281. Brátt var tekið að nefna hana Jónsbók eftir Jóni Einarssyni lögmanni, öðrum konungsfulltrúanum sem flutti hana til landsins frá Noregi. Jónsbók ásamt þremur réttarbótum konungs frá árunum 1294–1314, sem snertu texta hennar, gilti nánast óbreytt sem grundvöllur löggjafar á Íslandi allt fram á sextándu öld og við honum var ekki hróflað svo verulegt væri fyrr en á átjándu og nítjándu öld. Varðveitt handrit af Jónsbók eru á þriðja hundrað.

Hvert er efni Skarðsbókar Jónsbókar og aldur?

Smellið á myndina til að stækka hana. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir. Skinnbókin sem ber safnmarkið AM 350 fol. í handritasafni Árna Magnússonar er kennd við hið forna höfðingjasetur Skarð á Skarðströnd og nefnd Skarðsbók Jónsbókar. Hún geymir innan spjalda sinna texta Jónsbókar, sem hefst á bréfi Magnúsar konungs Hákonarsonar, en þar að auki texta 24 réttarbóta frá þrettándu og fjórtándu öld, sú yngsta frá árinu 1353; ennfremur Hirðskrá, lög sem hirð Noregskonungs heyrði undir; lög kirkjunnar, þ.e. Kristinrétt Árna biskups Þorlákssonar; ýmiss kirkjuleg fyrirmæli íslenskra biskupa og erkibiskupa í Noregi og greinar varðandi kirkjurétt; biskupastatútur og ýmislegt fleira smálegt. Á 148.–149. blaði standa t.d. fimm fróðleiksgreinar og er sú fjórða þeirra stutt yfirlit yfir heimsaldra og þar segir: „En frá hingað burð Krists er hinn hvíti aldur til heimsenda … en af þeim sama aldri eru nú liðin MCCCLX og III ár“. Þarna kemur fram beinn vitnisburður í bókinni sjálfri um aldur hennar, að hún eða a.m.k. seinasti hluti hennar hafi verið skrifaður árið 1363. Þessar upplýsingar skipa Skarðsbók í einstakan sess meðal íslenskra miðaldahandrita en þau tilgreina nánast aldrei ritunartíma sinn.

Gerð handritsins og skreytingar

AM 350 fol. er eitt stærsta Jónsbókarhandritið. Í bókinni eru 157 blöð sem raðast saman í tuttugu kver og eru átta blöð (fjögur tvinn) í öllum nema tveimur: átjánda kveri sem í eru sjö blöð og því tuttugasta sem í eru sex blöð. Skarðsbók er öll skrifuð af sama manni, bæði texti og fyrirsagnir kapítula, fyrir utan nokkur blöð sem eru seinni tíma viðbætur. Bókin er í stóru broti og eru stærstu blöð hennar nú 36,2 x 26,7 cm; þau hafa þó upphaflega verið nokkuð stærri, líklega 38 x 28 cm en bókbindarar hafa kantskorið bókina einhvern tíma á ferli hennar.

Frágangur texta og lýsingar í bókinni með því veglegasta og fegursta sem varðveist hefur á íslenskum skinnbókum. Textanum er skipað í tvo dálka á síðurnar, letur er óvenjustórt, línubil rúm og spássíur rýmri en venjulegt er. Í handritinu eru 14 fagurlega dregnir, lýstir og málaðir sögustafir, sem marka upphaf  Bréfs Magnúsar konungs, allra lagabálka bókarinnar, Hirðskrár og Kristinréttar Árna biskups. Mikið er lagt í frágang sögustafanna. Í belg eða bug þeirra eru teiknaðar myndir með rauðu bleki af fólki við athafnir sem skírskota með einhverjum hætti til efnis í þeim hluta bókarinnar sem þeir marka upphafið á. Myndskreyting fyrstu þriggja sögustafanna hefur trúarlega vísan. Við Bréf Magnúsar konungs fremst í bókinni er mynd af  boðun Maríu. Texti Þingfararbálks sem á eftir fylgir í sömu opnu hefst á ákalli lögþingsmanna til Herrans Krists, heilagrar Maríu og dýrlinga um frið og blessan. Efri armur stafsins (F) er sveigður og myndar hvelfingu yfir Heilaga þrenningu, utan við stendur leikmaður og réttir opna bók, væntanlega lögbók, inn í hið helga rými. Selma Jónsdóttir listfræðingur taldi þetta vera gjafaramynd sem sýndi að sá er gera lét Skarðsbók Jónsbókar hefði ætlað að gefa hana einhverri kirkjustofnun. Gjafaramyndir eru þekktar í erlendum handritum en þetta er eina gjafaramyndin í íslensku handriti. Í upphafi Kristindómsbálks er krossfestingarmynd.

Níu sögustafir heyra til lagabálkum bókarinnar; tveir þeirra hafa tvo myndfleti. Algengasta myndefni þessara stafa er tveir menn að handsala samning eins og lög mæla fyrir: um jarðakaup eða önnur kaup; ómagaframfærslu, leigu jarðar og búfénaðar og fartekju með skipi. Aðrar myndir sýna búfénað í rétt, menn að mæla vaðmál, skera hval og smíða skip. Réttarhald yfir sauðaþjófi, fangelsun og henging er sýnd í þremur myndum í sögustaf Þjófabálks, aðalmyndin í belg stafsins, hinar í leggnum. Sögustafur Hirðskrár sýnir konung rétta þegn sínum bréf og Kristinréttur Árna hefst á skírnarmynd: prestur dýfir nöktu barni í skírnarskál að viðstöddum foreldrum. Texti lagabálks um kvennagiftingar og erfðatal hefst í eyðufyllingunni í þriðja kveri og er upphafsstafur hans (F), sem er í líki vængjaðs dreka, því yngri en aðrar myndir í handritinu. Upphafsstafir málsgreina í handritinu eru einnig í lit, leggir þeirra víða skreyttir laufteinungum og mannsandlit dregin í belg margra þeirra. Ekkert bendir til annars en að unnið hafi verið jöfnum höndum að ritun texta og lýsingu bókarinnar; sögustafirnir hafa þó verið teiknaðir eftir að textinn var skrifaður því útlínur þeirra eru sumstaðar dregnar yfir stafi í meginmáli. Nöfn listamanns og skrifara eru óþekkt en rannsóknir hafa sýnt fram á að Skarðsbók Jónsbókar sé í hópi allnokkurra handrita í Árnasafni sem að sterkar líkur benda til að eigi uppruna sinn í sama skrifaraskóla eða skrifarastofu sem verið hafi í klaustrinu að Helgafelli á Snæfellsnesi.

Hverjir áttu Skarðsbók?

Aðdragandi þess að Árni Magnússon eignaðist Skarðsbók Jónsbókar var sá að vorið 1697 var biskupsembættið í Skálholti laust eftir lát Þórðar Þorlákssonar biskups og leituðu tveir efnilegir guðfræðingar eftir því að fá biskupsvígslu. Annar var Jón Vídalín Þorkelsson, aðstoðarmaður Skálholtsbiskups, en hinn var Þórður Jónsson, sonur Bauka-Jóns Vigfússonar Hólabiskups. Þórður færði Árna nokkur handrit frá Íslandi þar á meðal Skarðsbók Jónsbókar. Jón Vídalín hlaut biskupsembættið en Þórður varð skólameistari í Skálholti. Árið eftir embættistöku sína sendi Jón Vídalín Árna til Kaupmannahafnar á annan tug handrita sem voru eign Skálholtsdómkirkju en hafa síðan heyrt til í safni Árna.

Árni skráði í minnisgrein hjá sér að Þórður Jónsson hafi fengið Skarðsbók af Þorsteini Þórðarsyni (d. 1700) móðurbróður sínum, en Þorsteinn var giftur Arnfríði dóttur Eggerts Björnssonar (1612–1681) sýslumanns á Skarði, en faðir hans, Björn Magnússon (d. 1635) sýslumaður í Bæ á Rauðasandi, hefur skrifað á fremstu síðu handritsins að móðurfaðir hans, Eggert Hannesson (um 1515–um 1583), hafi gefið honum bókina; það hefur líklega verið um 1578. Eggert Hannesson er elsti þekkti eigandi Skarðsbókar Jónsbókar svo óyggjandi sé. Ekkert er vitað með vissu um sögu bókarinnar eða eigendur hennar næstu tvær aldirnar á undan honum. Einna líklegast er talið að upphaflega hafi Ormur Snorrason lögmaður á Skarði látið gera hana líkt og Skarðsbók postulasagna (SÁM 1 fol.) og hún hefði getað gengið að erfðum frá honum óslitið gegnum sex ættliði til Eggerts Hannessonar eftir fleiri en einni leið.

Skarðsbók var afhent Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 3. júní 1975.

Handritið er nú til sýnis á sýningunni Sjónarhornum í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík ásamt mörgum öðrum Jónsbókarhandritum.

Sigurgeir Steingrímsson