Samþykkisyfirlýsing

 
1.       Ég undirrituð/undirritaður rétthafi

[ nafn, kennitala ]

heimila hér með Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, kt. 700806-0490, (hér eftir oftast nefnd stofnunin) að nýta fyrir rannsóknir, orðabókagerð og tungutækniverkefni, m.a. við gerð tungutæknibúnaðar, allt ritað mál sem ég er rétthafi að, ein(n) eða með öðrum, og hefur verið gefið út, miðlað til almennings eða birt með öðrum hætti, hvort sem er í prentuðu formi eða rafrænu eða verið flutt opinberlega.

2.       Textunum verður komið fyrir í textasafni stofnunarinnar og hluti af þeim nýttur fyrir verkefnið Markaða íslenska málheild. Mér hefur verið afhentur kynningartexti um verkefnið Mörkuð íslensk málheild frá mars 2007 ásamt afriti af notkunarleyfi og hef ég kynnt mér þessi skjöl.

3.       Um útgefna texta verða skráðar venjubundnar bókfræðilegar upplýsingar. Enn fremur verða skráðar upplýsingar sem auðvelda flokkun textanna. Persónugreinanlegar upplýsingar verða ekki skráðar um óútgefna texta.

4.       Leyfið nær til þess að varðveita heil verk í textasafni Stofnunar Árna Magnús­son­ar í íslenskum fræðum. Textasafnið nýtist til rannsókna á íslensku máli og orðaforða og verður aðgengilegt til leitar á vefsetri stofnunarinnar. Í niður­stöðum slíkrar leitar birtast einungis stutt dæmi (allt að 500 bókstafir, 5–6 línur) úr textunum, þ.e. leitarstrengurinn ásamt nánasta samhengi, auk bókfræðilegra upplýsinga um viðkomandi texta. Ekki er unnt að nálgast lengri texta með leit í textasafninu.

5.       Leyfið nær einnig til þess að nota hluta úr textum í Markaða íslenska málheild. Hámarkslengd útgefinna texta í málheildinni er 40.000 orð (120–140 bls. í dæmigerðri skáldsögu). Ef útgefið verk eftir nafngreindan höfund er styttra en 40.000 orð er a.m.k. 20% af textanum sleppt. Aðgangur að málheildinni verður á vefsetri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Boðið verður upp á opna leit sem skilar einungis stuttum dæmum úr textum sbr. 4. grein. Sækja má um notandanafn og aðgangsorð að málheildinni sem gefur rýmri aðgang og sveigjanlegri leit gegn því að samþykkja notkunarskilmála. Þeim sem hyggjast nota málheildina í málrannsóknum og í tungutæknilausnum gefst kostur á að fá hana afhenta í heild (t.d. á geisladiski) gegn greiðslu umsýslugjalds og undirritun notkunarleyfis þar sem notkunarskilmálar eru tilgreindir.

6.       Ég samþykki að gerð verði eintök af textunum og þeir birtir eða þeim miðlað til almennings með þeim hætti er að framan greinir. Mér er ljóst að textasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum kann að þróast í framtíðinni og hið sama gildir um Markaða íslenska málheild, meðal annars vegna breyttrar tækni og breyttra hátta við notkun. Kann þetta að leiða til þess að meðferðin verði með öðrum hætti að einhverju leyti en greinir að framan. Stofnuninni er þó ætíð skylt að sjá til þess að notkun textanna sé með þeim hætti er samrýmist góðum siðum og þannig að ekki gangi gegn lögmætum hagsmunum mínum.

7.       Textarnir verða ekki nýttir í fjárhagslegum tilgangi. Notendur textanna hafa eingöngu heimild til endurbirtingar þeirra í samræmi við ákvæði 14. gr. höfundalaga nr. 73/1972 um tilvitnanir.

8.       Mér er ljóst að rétthafi getur hvenær sem er óskað eftir að fá afhentan lista yfir handhafa notkunarleyfa.

9.       Mér er ljóst að ég á ekkert tilkall til afurða rannsókna þar sem textarnir hafa verið nýttir.

10.     Ég ábyrgist að efnið brýtur ekki gegn réttindum neins þriðja aðila, svo sem hugverkaréttindum, reglum um persónuvernd eða rétti til friðhelgi einkalífs og felur ekki í sér ærumeiðingar af neinu tagi.

11.     Mér er ljóst að stofnunin ber ekki ábyrgð á hugsanlegum brotum á notkunarskilmálum.

12.     Mér er ljóst að rétthafa er hvenær sem er frjálst að tilkynna stofnuninni með skriflegum hætti að tiltekin verk skuli vera undanþegin nýtingu samkvæmt yfirlýsingu þessari. Skal þá eyða öllum afritum af textanum í textasafni og málheild en stofnuninni og notendum er heimilt að halda öryggisafriti og niðurstöðum er þeir hafa byggt á textanum.

13.     Verði breyting á starfssviði stofnunarinnar, verði starfsemin yfirfærð til annars aðila eða hún lögð niður samþykki ég að nýr rekstraraðili textasafnsins eða málheildarinnar taki við heimild stofnunarinnar samkvæmt yfirlýsingu þessari.

 
 

[ staður og dagsetning  ]

 

[ nafn, kennitala ]