Handritaútgáfunefnd Háskólans og Handritastofnun Íslands

Þegar handritamálið var komið á rekspöl á sjötta áratugi síðustu aldar, þótti auðsýnt að mikilvægt væri að Íslendingar sýndu að þeir væru engu síður, en aðrar þjóðir, færir um að búa til prentunar vísindalegar útgáfur fornrita í samræmi við ströngustu fræðilegar kröfur. Háskóli Íslands stofnaði handritaútgáfunefnd árið 1955, og starfaði hún til ársins 1962 þegar Handritastofnun Íslands tók við hlutverki hennar. Undanfari þessarar nefndarstofnunar voru bréf sem prófessorarnir Einar Ólafur Sveinsson og Ólafur Lárusson höfðu lagt fyrir menntamálaráðherra 29. mars og 3. des. 1954 með tillögum um útgáfustarfsemi og fjárveitingar til hennar. Fjárveitingin fékkst á fjárlögum 1955, og var nefndin stofnuð í framhaldi af því. Í handritanefnd áttu sæti prófessorarnir Einar Ól. Sveinsson, Alexander Jóhannesson, Ólafur Lárusson og Þorkell Jóhannesson. Eftir lát Þorkels Jóhannessonar 1960 tók Hreinn Benediktsson prófessor sæti hans í nefndinni. Á vegum þessarar nefndar kom út ljósprentun beggja aðalhandrita Íslendingabókar með formála eftir Jón Jóhannesson, Skarðsárbók Landnámu búin til prentunar af Jakobi Benediktssyni og Dínus saga drambláta búin til prentunar af Jónasi Kristjánssyni, og eru það allt hin vönduðustu verk. Handritastofnun Íslands tók síðan við hlutverki nefndarinnar, og sjást áhrif frá stefnumörkun þeirrar nefndar í starfsemi í hennar fyrstu árin.

Hinn 14. apríl 1962 samþykkti Alþingi Lög um Handritastofnun Íslands. Samkvæmt þeim er stjórn stofnunarinnar falin sjö manna stjórnarnefnd, en rekstur hennar skal annast forstöðumaður sem jafnframt sé prófessor við heimspekideild Háskóla Íslands. Einar Ólafur Sveinsson var skipaður til þessa embættis 1. nóvember 1962, og 27. nóvember sama ár skipaði menntamálaráðherra hann formann stjórnarnefndar sem hélt fyrsta fund sinn 10. desember. Stjórnarnefndar og forstöðumanns beið það hlutverk að móta stofnuninni fræðilega stefnu og velja starfsmenn og viðfangsefni, en jafnframt að skilgreina þarfir hennar til fjár og húsnæðis. Menn gengu að þessu verkefni af kappi, og fundir stjórnarnefndar voru efnismiklir og langir, en þó tíðir. Á 51. fundi 22. maí 1967 skýrði formaður stjórnar frá því að fyrsta skóflustunga hefði verið tekin að Árnagarði, þar sem Handritastofnun var ætlaður staður. Þangað flutti stofnunin síðan í árslok 1969. Einar Ólafur Sveinsson gegndi störfum forstöðumanns og stjórnarformanns til ársloka 1970, en þá hafði stofnuninni verið valinn nýr forstöðumaður, Jónas Kristjánsson, sem hafði frá upphafi starfað sem sérfræðingur við stofnunina ásamt Ólafi Halldórssyni. Auk þeirra störfuðu þar jafnan nokkrir styrkþegar, nýútskrifaðir kandidatar eða stúdentar. Þá hafði sérfræðingum við handritarannsóknir og útgáfu einnig fjölgað, og þeir Jón Samsonarson og Stefán Karlsson verið ráðnir til þeirra starfa. Ennfremur hafði verið stofnuð þjóðfræðadeild við stofnunina með einn starfsmann, Hallfreð Örn Eiríksson.

Við Handritastofnun Íslands var mótuð sú stefna í útgáfumálum sem síðan hefur að mestu sett svip á starf Stofnunar Árna Magnússonar, en hún tók við hlutverki Handritastofnunar með lögum sem sett voru 1972, og hefur sú stefna og það starf sem unnið var við Handritastofnun borið ríkulegan ávöxt í starfi Stofnunar Árna Magnússonar.

1. september 2006 var Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi lögð niður í þeirri mynd sem hún hafði haft frá því að henni var komið á fót með lögum nr. 70, samþykktum á Alþingi 17. maí 1972. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi rann þá ásamt fjórum öðrum stofnunum í íslenskum fræðum inn í nýja stofnun; Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þann sama dag gengu í gildi lög nr. 40 frá 12. júní 2006 um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en í ákvæðum til bráðabirgða með lögunum segir m.a.: „Við gildistöku laga þessara tekur Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum við eignum og skuldbindingum Íslenskrar málstöðvar, Orðabókar Háskólans, Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, Stofnunar Sigurðar Nordals og Örnefnastofnunar Íslands. Í því felst m.a. að starfsmenn framangreindra stofnana verða starfsmenn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.“