Rannsóknarverkefni doktorsnema með vinnuaðstöðu á stofnuninni

  • Bjarni Gunnar Ásgeirsson: Rannsóknir á Skafinskinnu

Markmið verkefnisins er tvíþætt: annars vegar að rannsaka stöðu Skafinskinnu (GKS 2868 4to) meðal handrita Njáls sögu, og hins vegar að gera fullkomna lýsingu á skriftarfræðilegum og stafsetningarlegum þáttum handritsins, ásamt handritafræðilegri lýsingu. Handritið verður skrifað upp í XML á táknréttan, stafréttan og samræmdan hátt. Uppskriftirnar verða síðan notaðar til að finna skriftarfræðilega og stafsetningarlega þætti til þess að ákvarða aldur handritsins og fjölda rithanda. Staða Skafinskinnu meðal Njáluhandrita verður endurskoðuð en slíkt verk hefur ekki verið unnið síðan á sjötta áratug 20. aldar. Skyldleiki handritanna verður skoðaður með því að bera saman lesbrigði þeirra og nýrri textafræði verður beitt við handritafræðilegu rannsóknina og athugun á ferli handritsins. Verkefnið mun veita verðmætar upplýsingar um stöðu Skafinskinnu meðal Njáluhandrita, en Skafinskinna er eitt af aðeins tveimur handritum Njálu sem hafa verið flokkuð í Z-flokk. Texti þess flokks er ekki eins þekktur og annarra flokka, enda hafa útgefendur fyrst og fremst notast við handrit X- og Y-flokks við útgáfur sínar á sögunni. Verkefnið mun auka skilning okkar á handritageymdinni og verður að miklu gagni fyrir síðari rannsóknir á handritunum og framtíðarútgáfu Njálu, og mun auk þess nýtast við rannsóknir á sögulegri málþróun íslenskunnar. Leiðbeinandi er Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknardósent á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

  • Heimir Freyr Viðarsson: Mál í skorðum: tilurð staðlaðrar íslenskrar setningafræði á 19. öld

Verkefnið beinist að setningafræðilegum tilbrigðum og breytingum á 19. öld í tengslum við málstöðlun. Það er hluti af stærri rannsókn, Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals. Markmið verkefnisins er að kortleggja setningafræðileg fyrirbrigði sem urðu tilefni til umræðu um rétt/rangt mál, t.d. í tímaritum og kennslubókum, að greina hvaða hugmyndafræði bjó þar að baki og jafnframt hver áhrif slíkra ummæla voru ef litið er á raunverulega málnotkun. Valin tilbrigði verða könnuð ofan í kjölinn í ólíkum tegundum texta, allt frá persónulegum bréfum til útgefinna, ritstýrðra rita, með hliðsjón af félagsmálfræðilegum og málkunnáttufræðilegum kenningum. Rannsóknin varpar ljósi á möguleika þess að snúa við málbreytingum en hefur einnig sértækt fræðilegt gildi hvað varðar dreifingu og eðli tiltekinna setningagerða í 19. aldar máli. Þar koma þekkt fræðileg álitamál mjög við sögu, ekki síst samspil beygingakerfis og orðaraðar, auk áhrifa erlendra mála og samfélagsgerðar á setningafræðilegar formgerðir. Leiðbeinandi er Þórhallur Eyþórsson fræðimaður við Málvísindastofnun Háskóla Íslands.

  • Ingibjörg Eyþórsdóttir: Sagnadansar – ást, hatur, ofbeldi: Umfjöllunarefni og félagslegt hlutverk

Viðfangsefni rannsóknar minnar er sagnadansar varðveittir á Íslandi, með aðaláherslu á þann hluta greinarinnar sem segir frá hlutskipti kvenna: ástum, átökum, hatri og kynferðislegu ofbeldi. Þetta virðist með einum eða öðrum hætti vera meirihluti þeirra kvæða sem varðveitt eru hér á landi. Sjónarhornið sem birtist í þessum kvæðum er langoftast kvennanna og sögusamúðin er einnig oftast þeirra megin; í þeim kvæðum sem segja frá ofbeldi eru konur oftast fórnarlömbin en þó kemur fyrir að þær eru afdráttarlausir gerendur og bregðast þær við ofbeldinu með því að hefna grimmilega.

       Margt bendir til þess að kvæðin hafi lengi verið hluti dægurmenningar þjóðarinnar, þau eru höfundarlaus og hafa að öllum líkindum gengið á milli fólks um langa hríð áður en þau voru loks skráð eftir miðja 17. öld. Í rannsókninni verða sagnadansarnir flokkaðir og greindir og fjallað um þá sem hluta munnlegrar menningar en vegna varðveislunnar verða bókmenntaleg einkenni þeirra einnig rannsökuð enda lifðu þeir sem rituð kvæðagrein allt frá skráningu. Vegna umfjöllunarefnisins verður fyrst og fremst leitað svara við þeirri spurningu hvort kvæðin geti hafa verið hluti af menningu kvenna og kveðin og flutt af konum, og þá hvort kvæðin hafi gegnt ákveðnu hlutverki innan kvennamenningar. Í upphafi verður gengið út frá þessu sem líklegri tilgátu, enda lýsa þau flest reynslu sem margar konur þekktu í einhverri mynd og gátu samsamað sig við. Hugmyndir um úrvinnslu áfalla með stuðningi frásagnar og annarra listforma verða kynntar í því samhengi. Þar verður aðaláherslan á flutning kvæðanna og þá heild sem kvæði, tónlist og dans skapar. Leiðbeinandi er Aðalheiður Guðmundsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og er verkefnið styrkt af Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands.

  • Júlíana Þóra Magnúsdóttir: Þáttur kyns í mótun og söfnun sagna- og þjóðtrúarhefða

Doktorsrannsóknin beinist að sagnamenningu íslenskra kvenna á 19. og 20. öld og ýmsum kynbundnum þáttum sagna- og þjóðtrúarhefðar. Til þessa hafa rannsóknir á íslensku sagnafólki einkum beinst að flytjendum ævintýra og miðar þessi rannsókn því öðru fremur að því að auka þekkingu okkar á sögumönnum sagna og hlutverki kyns, umhverfis og reynsluheims í mótun og miðlun þeirra. Við rannsóknina eru notuð viðtöl tveggja þjóðfræðasafnara eða söfnunarteyma segulbandasafns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, annarsvegar hjónanna Helgu Jóhannsdóttur og Jóns Samsonarsonar og hinsvegar Hallfreðar Arnar Eiríkssonar. Þessir þjóðfræðasafnarar söfnuðu efni á seinni hluta 20. aldar frá heimildamönnum fæddum á síðustu áratugum 19. aldar og í byrjun 20. aldar og má því segja að rannsóknin beinist að síðustu kynslóð hins hefðbundna íslenska bændasamfélags. Rannsóknin nær til þeirra, á fjórða hundrað heimildakvenna þessara safnara, sem miðla sagnaefni í viðtölunum auk 100 karlkyns heimildamanna þeirra, sem notaðir eru sem samanburðarhópur í hluta rannsóknarinnar. Hún beinist að nokkrum ólíkum þáttum sagnahefðarinnar, meðal annars áhrifum kyns á söfnun og varðveislu sagnahefðar; kynbundnum mun á notkun frásagnaháttar og tegundum sagna;  og tengslum reynsluheims og athafnasviðs við sagnasköpun og vettvang sagnaskemmtana. Felst aðferðafræði rannsóknarinnar að miklu leyti í kortlagningu helstu þátta í sagnasjóðum sagnafólksins og athugunum á ólíkri tíðni þeirra meðal kvenna og karla. Leiðbeinandi er Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands.

  • Katelin Parsons: Flutningur og félagslegt umhverfi bókmennta á íslenskri árnýöld  (English version)

Íslenskar bókmenntir árnýaldar bera þess víða merki að vera samdar til flutnings eða upplestrar í félagslegu rými en ekki til lestrar í einrúmi. Verkefnið beinist að íslenskum samtíðabókmenntum eftir siðskipti (um 1550–1700) og áframhaldandi túlkun og dreifingu þeirra fram til nútímans, með áherslu á þýdd verk í bundnu máli. Rannsóknin leitast við að greina eðli félagslegra og leikrænna eiginleika íslenskra bókmennta árnýaldar, stöðu og áhrif evrópskra bókmennta samtímans og þær venjur sem hafa skapast í flutningi bókmenntaverka frá þessum tíma. Kjarni verkefnisins er ljóðabálkurinn Einvaldsóður (1658) en hann er umfangsmikil þýðing á kvæði eftir skoska ljóðskáldið Sir David Lyndsay. Í fyrsta hluta verkefnisins verður greint samfélagslegt samhengi þýðingarinnar eins og það kemur fram í  íslenskum verkum (þýddum og frumsömdum) um aftöku Karls 1. Englandskonungs og enska samveldið, 1649–1660. Í öðrum hluta verður efnisleg varðveisla Einvaldsóðs könnuð og handritafræðilegar aðferðir notaðar til að rýna í breytileika textans og efnislegt/félagslegt samhengi hans. Í samstarfi við tónskáldið Guðmund Stein Gunnarsson og Hljóðrannsóknarhóp LornaLab mun síðan verða gerð rannsókn á sjálfum flutningi verksins, sem verður frumsýnt í Reykjavík árið 2016 með sýningum í Kaupmannahöfn, Ósló og Gautaborg árið 2017. Leiðbeinandi er Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

  • Matteo Tarsi: Tökuorð og innlend orð í forn- og miðíslensku

Það er grundvallaratriði íslenskrar hreintungustefnu að forðast tökuorð og velja (eða smíða) innlend orð í þeirra stað. Þetta veldur því að oft myndast samheitapör í orðaforðanum, þar sem orð smíðuð af innlendum efnivið og tökuorð lifa saman hvor við hliðina á öðrum og keppa hvor við önnur. Svo er aftur komið á jafnvægi í orðaforðanum annaðhvort með því að fella úr notkun tökuorðið eða innlenda orðið eða með því að aðgreina þau á vissan hátt (t.d. að því er varðar formlega og óformlega málnotkun). Íslensk hreintungustefna er talin byrja um 1600 eða um það leyti er Arngrímur Jónsson lærði skoraði á samlanda sína að nota mál forfeðra sinna í tali og riti fremur en taka að láni orð og orðtök frá Dönum og Þjóðverjum. Í ritverkum fyrri alda eru mörg dæmi um samheitapör. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að athuga hvernig samheitapör mynduð af innlendum orðum og tökuorðum haga sér í ólíkum textategundum á forn- og miðíslenskum tíma. Niðurstöður rannsóknarinnar eiga ekki aðeins erindi við Íslendinga, heldur einnig við alla þá sem áhuga hafa á íslensku máli og menningu erlendis, ekki síst þá sem fást við málræktarfræði og áhrif eins tungumáls á annað. Leiðbeinendur eru Jón Axel Harðarson, prófessor við Háskóla Íslands, Veturliði Óskarsson, prófessor við Háskólann í Uppsölum, og Ari Páll Kristinsson, rannsóknaprófessor á málræktarsviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

  • Roberto Luigi Pagani: Skrifarar og íslensk skrifaravenja á 15. öld

Markmið rannsóknarinnar er að gera yfirlit um og greiningu á þróun skriftar, máls og stafsetningar á „hinni löngu 15. öld“, þ.e. frá síðasta fjórðungi 14. aldar og fram á fyrsta fjórðung 15. aldar. Þetta tímabil í sögu íslenskrar skriftar og stafsetningar er stundum álitið tímabil stöðnunar í samanburði við aldirnar á undan, en það gerir það að verkum að erfitt hefur reynst að tímasetja bækur og skjöl frá þessum tíma á grundvelli skriftar og stafsetningar. Þetta tímabil hefur þó fram að þessu ekki verið rannsakað kerfisbundið. Í þessu verkefni verður ráðist í kerfisbundna rannsókn á helstu breytingum sem áttu sér stað í íslenskri skrift, stafsetningu og máli á þessum tíma með því að kanna valda þætti í fjölda skrifarahanda í handritum og bréfum frá öllum tímabilinu. Breytileiki frá einum skrifara til annars verður kannaður sérstaklega og einnig innri breytileiki í handritum sem eignuð eru einum og sama skrifara. Afrakstur verkefnisins verður fyrsta kerfisbundna rannsóknin á íslenskri skrift, stafsetningu og máli á 15. öld. Verkefnið skilar þannig ekki aðeins mikilsverðu framlagi til bættrar þekkingar okkar á þróun íslenskrar skriftar, stafsetningar og máls almennt, heldur mun hún hafa beint hagnýtt gildi með því að auðvelda aldursgreiningu handrita og bréfa frá tímabilinu.

  • Soffía Guðný GuðmundsdóttirArons saga Hjörleifssonar – tilurð, varðveisla og viðfangsefni (English version)

Saga Arons telst til samtíðarsagna og tengist atburðum sem greint er frá í Sturlunga sögu og Guðmundar sögu biskups A. Sagan hefur aðeins varðveist í einu miðaldahandriti frá fyrri hluta 15. aldar en í því voru tvær textaeyður þegar það var afritað á 17. öld. Saga Arons hefur þrívegis verið prentuð, sem viðauki Sturlungu eða Biskupasagna. Textaeyður voru þá fylltar efni úr Guðmundarsögu A og vísur Arons sögu taldar 16, þó einungis 11 séu varðveittar. Rannsóknin er þríþætt: 1) Handritageymdin er könnuð, m.a. vísnageymdin, og birt með rafrænum hætti. 2) Tilurð sögunnar og samsetning er rannsökuð, m.a. hvort ólíkir efnisþættir ásamt vísnageymd og samspili vísna og lausamáls varpi ljósi á ritun hennar og mögulega umritun. Rýnt er í textasamhengi Arons sögu, Guðmundarsögu A og Sturlungu, m.a. út frá rannsóknargögnum alþjóðlega útgáfuverkefnisins Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages, og tekist á við spurningar um víxlverkandi eða gagnkvæm textaáhrif í sagnaritun 14. aldar. 3) Viðfangsefni eru greind með nákvæmum lestri, og samanburðarlestri við samtímasögur og Íslendinga sögur. Efnisþættir, þemu og þræðir, minni og merking þeirra rædd, samhliða öðrum lykilatriðum í túlkuninni. Vísur Arons sögu verða búnar til útgáfu í 4. bindi Skaldic-útgáfunnar, með þeim rannsóknaraðferðum sem ritstjórnin hefur mótað.

  • Teresa Dröfn Njarðvík: Frá Ölvis rímum sterka til Bragða-Ölvis sögu

Rannsóknin miðast við sagnaþróun á Íslandi og samband milli hetjukvæða, rímna og sagna, með sérstakri áherslu á Ölvis rímur sterka og Bragða-Ölvis sögu. Rímurnar og sagan verða athugaðar og settar í samhengi við bókmenntaþróun síðmiðalda á Íslandi. Textaútgáfa á sögunni og rímunum myndi síðan fylgja verkinu í viðauka, þar sem efnið er ýmist óútgefið eða illaðgengilegt. Rannsóknin mun því ekki aðeins auka við þekkingu á bókmenntaflóru Íslands á fyrri öldum, sagnaþróun og samblöndum hefða, heldur mun hún einnig tryggja aðgengi að þessum áður óútgefnu textum og koma þeim þar með inn í fræðilega jafnt sem almenna umræðu. Eitt af markmiðum rannsóknarinnar er að gera þessa áður óútgefnu texta aðgengilega sem flestum notendum og því verða textarnir prentaðir stafrétt eftir handritum auk þess sem stefnt verður að því að prenta textana með nútímastafsetningu aftan við. Leitast verður við að útskýra íslenska bókmenntahefð og sagnaþróun og skilja hvernig frásagnir „flökkuðu“ milli bókmenntategunda og voru aðlagaðar í breytilegu formi í takt við samfélagið. Kenningar um sagnaþróun verða settar fram og útskýrðar og verkin tvö sett í samhengi við íslenska bókmenntaflóru í stærra samhengi. Leiðbeinandi er Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.

  • Védís Ragnheiðardóttir: Tilkoma og þróun frumsaminna riddarasagna í ljósi miðaldaævintýra

Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka tilkomu og þróun frumsaminna riddarasagna í ljósi svokallaðra exempla, sem ganga í norrænum frumheimildum undir ýmsum nöfnum, svo sem ævintýr, dæmi og dæmisaga, og hafa verið skilgreind sem stuttar sögur með fræðandi boðskap. Lögð er áhersla á þau ævintýr sem þýdd voru úr latínu á 12. og 13. öld og voru gefin út á 19. öld undir nafninu Islendzk æventyri. Tilgáta rannsóknarinnar verður prófuð á þrjá vegu: 1) athugun á miðaldahugtakanotkun um þessar tvær bókmenntagreinar, 2) tilviksrannsókn á tveimur textum (Klári sögu og Drauma-Jóns sögu), og 3) almennur samanburður minna milli bókmenntagreinanna. Meginaðferðafræðin að baki verkefninu er samanburðarlestur og nákvæmur lestur. Í tilviksrannsóknunum verða textar sagnanna bornir saman við ævintýr, rómönsur og þjóðsögur. Í almennum samanburði á notkun minna verður beitt nákvæmum samanburðarlestri á frumsamdar riddarasögur og ævintýr. Verkefnið mun varpa nýju ljósi á tilkomu og þróun frumsaminna riddarasagna og draga inn í umræðuna hið vanrækta rannsóknarsvið ævintýr. Verkefnið er styrkt af Rannsóknasjóði. Leiðbeinandi er Ármann Jakobsson, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands.

Í doktorsverkefninu felst undirbúningur að útgáfu á þulum síðari alda (15.–20. öld), sem byggi á vísindalegum forsendum, ásamt rannsókn og lýsingu á þulum (í ritgerðarformi). Þulur síðari alda eru romsukennd þjóðkvæði sem lúta fáum bragfræðilegum reglum, einkennast af endurtekningum með tilbrigðum og eru síbreytilegar í flutningi. Þær eru einstæð þjóðkvæðagrein sem stendur mjög nálægt formúlukveðskap. Í rannsókninni er tekið sérstakt tillit til stöðu þulna í bókmenntasögulegu samhengi, m.a. með tilliti til annarra íslenskra munnmennta og bókmenntagreina, sambærilegs kveðskapar á öðrum Norðurlöndum og þróunar hefðarinnar frá fornum þulum til nútíðar. Reynt er að varpa ljósi á sérkenni íslenskrar þuluhefðar og gefa yfirsýn yfir langa þróunarsögu hennar. Leiðbeinendur eru Vésteinn Ólason, Guðrún Nordal og Terry Gunnel.