Önnur rannsóknarverkefni

  • Bragi óðfræðivefur: Bjarki Karlsson í samstarfi við Kristján Eiríksson, emeritus, sem er frumsmiður Braga og fyrrverandi ritstjóri hans.

Bragi – óðfræðivefur er gagnvirkur rannsóknargrunnur í bragfræði- og bókmenntum. Einnig nýtist hann vel til rannsókna á öðrum sviðum, til dæmis orðfræði, hljóðkerfisfræði og málsögu. Í honum er hægurinn hjá að rannsaka uppruna einstakra bragarhátta, dreifingu þeirra og vinsældir og hvaða hættir þóttu best henta ákveðnum yrkisefnum. Mestur hluti íslenskra fagurbókmennta milli 1400 og 1800 var í bundnu máli og menn bundu reyndar ­„hugsun sína og hag í ljóð“ á því næst öllum sviðum lífsins á þessu tímabili. Því má ætla að grunnurinn nýtist einnig vel til rannsókna í þjóðfræði og jafnvel sagnfræði þegar fram líða stundir. Grunnurinn er þegar orðinn öflugt rannsóknartæki og nýta Haukur Þorgeirsson og Bjarki Karlsson, sem báðir eru doktorsnemar í bragfræði, sér hann óspart við sína vinnu og jafnframt nýtur vefinn rannsókna þeirra. Hluti af grunninum er reyndar sérstakur vinnugrunnur Bjarka með dægurlagatextum frá 1950 til 2012. Hann er reyndar ekki opinn almenningi enn sem komið er þar sem samningum við höfundarréttarhafa er ólokið. Af öðrum fræðimönnum sem unnið hafa við grunninnn og nota sér hann jafnframt við rannsóknir sínar má nefna Yelenu Sesselju Helgadóttur sem vinnur nú að doktorsritgerð um íslenskar þulur, Þórð Helgason dósent á menntavísindasviði Háskóla Íslands og Rósu Þorsteinsdóttur á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þá er að geta þess að nokkur héraðsskjalasöfn hafa þegar tengst Braga og munu þau einkum leggja áherslu á skráningu skáldskapar úr heimahéraði eftir 1800. Mest munar þar um Vísnasafn Skagfirðinga með fleiri þúsundum lausavísna. Stefnt er að því með tíð og tíma að fullskrá öll varðveitt ljóð eldri en frá því um aldamótin 1800 og ætti þá með hinu gagnvirka viðmóti að vera unnt að rannsaka rækilega sögu og þróun íslenskrar ljóðagerðar í aldanna rás, jafnframt því sem þá fengjust stórmiklar upplýsingar um þróun íslensks máls ásamt vitneskju sem gagnaðist bæði þjóðfræðingum og sagnfræðingum. Niðurstöður sumra þessara rannsókna verða smám saman birtar á Braga sjálfum, einkum þó á Handbók hans.
Ritstjóri Braga og umsjónarmaður gagnagrunna er Bjarki Karlsson.

  • Heilagur Nikulás: Sverrir Tómasson.

Undirbúningur hefur staðið yfir í mörg ár að vísindalegri útgáfu á Nikulássögum erkibiskups, sem bæði eru til þýddar og frumsamdar. Elsta brotið er þýðing, líklega frá 12. öld, varðveitt í handriti frá því um 1200. Þessi þýðing virðist hafa verið notuð við þá gerð sögunnar sem varðveitt er í handritinu Stock Perg nr 2 fol frá fyrri hluta 15. aldar. Af íslensku skinnbókarbroti frá 14. öld sem nú er varðveitt í Ríkiskjalasafninu í Óslo er einnig ljóst að Nikulássaga hefur einnig þekkst í annarri þýðingu. Stærsta sagan af heilögum Nikulási er aftur á móti sett saman á öndverðri 14. öld af Bergi Sokkasyni ábóta á Munkaþverá. Veigamesti hluti rannsóknarinnar snýst um þá gerð sögunnar. Ætlunin er að gera í inngangi útgáfunnar rækilega grein fyrir vinnubrögðum Bergs Sokkasonar ábóta sem var einn mikilvirkasti helgisagnaritari Íslendinga á 14. öld. Af sögu Bergs hafa varðveist 9 handrit og handritabrot frá miðöldum og eitt pappírshandrit sem skrifað var upp á fyrri hluta 18. aldar eftir skinnbók sem nú er glötuð. Aðeins tvö handritanna hafa að geyma allan texta sögunnar, AM 640 4to, Ærlækjarbók, frá lokum 15. aldar og Stock Perg nr 16 4to, Helgastaðabók, frá því um 1400. Skylt þessu verkefni er útgáfa á latneskum Nikulástíðum með nótum. Þær hafa geymst í einu handriti af Nikulássögu Bergs Sokkasonar, Ærlækjarbók sem komin er frá Ærlæk í Öxarfirði. Nikulástíðir hafa mjög mikið menningarsögulegt gildi, þar sem fáar íslenskar tíðabækur hafa varðveist heilar og lítið er vitað um þetta svið íslenskrar menningar. Markmiðið með útgáfunni er að gefa íslenskum almenningi og fræðimönnum innsýn inn í menningarheim trúar og tónlistar á miðöldum. Tíðirnar verða gefnar út ljósprentaðar, með stafréttum texta andstefja og svara, en einnig verða nóturnar færðar frá fjórum strengjum yfir á fimm eins og nú tíðkast og textinn samræmdur og loks þýddur á íslensku.
Verkefnið hefur hlotið styrk úr Kristnihátíðarsjóði og samstarfsmaður Sverris er Eggert Pálsson tónlistarmaður.

  • Verk Jóns Guðmundssonar lærða: Einar G. Pétursson.

Árið 1998 kom út frá minni hendi Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða. I–II. Þar eru gefin út tvö rit. Hið fyrra, Samantektir um skilning á Eddu, er að efni til uppskrift á Snorra-Eddu eftir glötuðu handriti með löngum viðaukum. Seinna ritið, Að fornu í þeirri gömlu norrænu kölluðust rúnir bæði ristingar og skrifelsi, er samið til skýringa á Brynhildarljóðum eftir Völsunga sögu. Bæði ritin voru skrifuð að beiðni Brynjólfs biskups Sveinssonar til aðdrátta í rit um fornan norrænan átrúnað, sem hann samdi aldrei. Björn Jónsson á Skarðsá samdi skýringar á Sigurdrífumálum og Völuspá. Fyrir fyrrnefndu skýringunum gerði ég grein í fyrirlestri á 11. fornsagnaþinginu í Sydney sumarið 2000 og birtist í ráðstefnuritinu. Þau rit, sem hér voru nefnd, eru mikilvæg til að varpa ljósi á fræðasögu 17. aldar. Reyndar eru rannsóknir á henni svo skammt á veg komnar, að ekki er enn ljóst hvaða rit voru í raun samin að frumkvæði Brynjólfs biskups og Hólamanna vegna þeirrar fræðastarfsemi, sem þeir stjórnuðu. Á þessum árum réðst hvort Íslendingar varðveittu eða glötuðu sínum forna bókmenntaarfi, dyttu niður í barbarísku. Mörg fornrit eru aðeins til í uppskriftum frá þessum tímum og margt er alveg glatað, og geta rit samin á 17. öld varðveitt brot eða gefið vísbendingu um tilvist rita sem ella eru glötuð með öllu. Tíðfordríf og rit í óbundnu máli. Fleiri rit samdi Jón lærði fyrir tilmæli Brynjólfs biskups Sveinssonar. Þekktast þeirra sem ekki hafa enn verið prentuð er Tíðfordríf, samið árið 1644 og svar við glötuðu bréfi frá Brynjólfi biskupi. Tilgangurinn var m. a. að fá fyllri vitneskju um sumt, sem óljóst var í Samantektum, en Tíðfordríf er sundurlaust. Ég hef gert skrá yfir helstu handrit þess og ljóst er, hvaða handrit ber að leggja til grundvallar útgáfu. Erfitt verður því að kollheimta öll handrit með ýmsum textabútum úr ritinu. Tvímælis getur einnig orkað, hve miklu púðri á að eyða í athugun á ungum uppskriftum. Þó verður að kanna það og sum gömul handrit, eins og m. a. handrit í Stokkhólmi, Papp. fol. nr 60 og 64, eru með viðbótum, og er ástæða til að prenta þær. Lækningabækur. Sérstaklega þarf að gefa út ritið Um nokkrar grasanáttúrur, sem er að hluta til varðveitt í eiginhandarriti og er sett saman fyrir tilmæli Brynjólfs biskups Sveinssonar. Lækningabækur Jóns eru með nokkrar efnislíkingar við Tíðfordríf og er því ástæða en ella til að gefa þau rit út saman. Lækningabækur eftir siðaskipti eru m. a. merkilegar fyrir það, að þar er orðaforði sem litlar heimildir eru til um, en sumt af honum var daglegt mál. Um ættir og slekti, er þriðja rit Jóns lærða í lausu máli, sem brýn þörf er á að gefa út. Ritið var gefið út 1902, en útgáfan var ekki vönduð og annað handrit hefur komið í leitirnar sem þarf að nota við nýja útgáfu. Rit í bundnu máli. Elst af kveðskap Jóns lærða er frá 1611 og 1612 gegn draugunum á Stað á Snæfjöllum, Snjáfjalladraugunum. Kvæðin eru Fjandafæla, sem er óprentuð í heild og varðveitt í mörgum handritum. Tvö seinni kvæðin, Snjáfjallavísur hinar síðari og Umbót eður friðarhuggun, eru aðeins varðveitt í einu handriti og þarf að gefa þau bæði út. Ævikvæði, Fjölmóð, orkti Jón lærði á gamals aldri 1649, og er það yngsta rit hans, sem kunnugt er um. Árni Magnússon átti eiginhandarrit, sem brann 1728, en ekki eru nú kunn handrit, sem varðveita kvæðið heilt. Kvæðið var gefið út 1916, en nýja útgáfu vantar. Að nýju þarf einnig að gefa út Áradalsóð, en hann er einkum varðveittur í ungum og misjafnlega góðum handritum. Einnig kemur til greina að láta með fylgja í útgáfu nokkur, stutt kvæði eftir Jón, eins og Tímarímu, vikivakakvæði og fleira. Sérkennilegast fyrir varðveislu kvæða Jóns lærða er, að í handriti sem skrifað var í Winnipeg 1894 eru 27 kvæði, sem örugglega eru eftir Jón lærða en hvergi varðveitt annars staðar.