þröskuldur

Þröskuldur er hluti af dyraumbúnaði, plankinn sem liggur milli dyrastafa og skilur á milli herbergja. Þetta er þó ekki eina merking orðsins, það er einnig haft um fjallshryggi eða hæðarhöft í landslagi eins og í eftirfarandi dæmum úr ritmálssafni Orðabókar Háskólans:
  • upp á fjallseggina eða þröskuldinn milli dalsins og Hörgárdalsheiðar
  • Fagrahlið var fyrir sunnan Þjófadali og þröskuldur á milli, en mér sýndist það líkjast skarði
Þá eru sker í sjó stundum kölluð þröskuldar:
  • þar er þröskuldur fyrir framan, sem ekki flýtur yfir um fjöru
  • var þó lending viðsjál, því að í henni gat riðið á þröskuldi, nema vel væri sjóað
Loks er orðið haft um hvers kyns hindranir eða farartálma eins og hér sést:
  • Slíkt [...] mundi setja þröskuld fyrir allar framfarir
  • var mér þetta lengi hvimleiður og erfiður þröskuldur í vegi.
  • Innan Héraðs eru árnar, sem bæði eru margar og stórar, mjög mikill þröskuldur fyrir samgöngum
Orðið sjálft má kallast nokkuð torkennilegt og liggur ekki í augum uppi hvernig það gæti tengst öðrum orðum málsins. Eldri mynd þess er þresköldr sem kemur m.a. fyrir í vísu sem eignuð er Kormáki Ögmundarsyni en haft er fyrir satt að hann hafi verið á dögum á 10. öld:

Brunnu beggja kinna
björt ljós á mig drósar,
oss hlægir það eigi,
eldhúss of við felldan
en til ökkla svanna
ítrvaxins gat eg líta,
þrá munat oss um ævi
eldast, hjá þreskeldi.

Svo virðist sem Íslendingum fyrri alda hafi eins og nútímamönnum þótt þetta orð skringilegt, til marks um það er orðmyndin þrepskjöldur sem fer að bregða fyrir í heimildum á 17. öld og hefur reyndar lifað fram á okkar daga. Hér er líklegast um að ræða eins konar tilgátu um uppruna eða samhengi orðsins en slíkar skýringartilgátur kalla orðsifjafræðingar alþýðuskýringar.

Í rauninni á þröskuldur þó hvorki skylt við þrep né skjöld og nánasti ættingi þess í íslensku er sögnin þreskja ‘losa korn úr axi’. Einhvern tíma í grárri forneskju hefur orð samsvarandi þröskuldi verið haft um áhald til að þreskja korn, líklega einhvers konar fjöl þar sem troðið var eða trampað á öxunum til að losa kornið, e.t.v. við innganginn að híbýlum manna. Síðar voru teknar upp aðrar aðferðir við þreskingu en fjölin í dyrunum hélt heiti sínu þótt samhengið gleymdist. Hefði merkingarsamhengið haldist, mætti gera sér í hugarlund að þröskuldur væri kallaður *þreskjald á okkar dögum.

Heimildir
  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
  • Íslendinga sögur II. 1985. Ritstj. Jón Torfason, Sverrir Tómasson og Örnólfur Thorsson. Svart á hvítu. Reykjavík.
Aðalsteinn Eyþórsson
nóvember 2002