Jónas Hallgrímsson og nýyrðin

Ekki þarf að fara mörgum orðum um Jónas Hallgrímsson og kveðskap hans. Jónas hefur í hátt á aðra öld verið eitt af ástsælustu skáldum þjóðarinnar og enn er lítið farið að fyrnast yfir hann eins og mörg eldri skáldanna sem þó ortu fögur og stórbrotin ljóð. Ekki gera allir sér grein fyrir því hversu góður orðasmiður Jónas var og enn færri minnast þess að Jónas skrifaði fleira en ljóð. Hann var góður þýðandi og skrifaði einnig talsvert um fræðasvið sitt náttúrufræðina. Virðing hans fyrir tungumálinu, málkennd hans og næmi fyrir blæbrigðum tungunnar gerðu honum kleift að tjá hugsanir sínar og annarra í þann búning að nýyrði yfir hluti eða hugmyndir, sem áður áttu sér ekki samsvaranir á íslensku, og ný orð og nýjar samsetningar í ljóðum og lausu máli virðast gamalkunn og eins og hluti af grunnorðaforða málsins.

Eitt af þekktustu kvæðum Jónasar er Gunnarshólmi. Þar er mörg orð að finna sem Jónas virðist hafa búið til. Þau falla svo vel að efni kvæðisins, eru svo lýsandi að lesandinn sér landið fyrir sér eins og opna bók. Hann sér fagurtæra lind himinblámans, byggðabýlin smáu, spegilskyggnd hrafntinnuþök og lítur sælan sveitarblóma. Hann horfir í huganum á klógula ernina, sem hlakka yfir veiðinni, sér birkiþrastasveiminn blika í laufi, stendur á hlaðinu í rausnargarði og heyrir öldufallaeiminn frá ströndinni, hlustar á hafganginn við Eyjasand og sér fyrir sér borðfagra skeið sem bíður þeirra Gunnars og Kolskeggs. Á ferð eru skeiðfráir jóar á leið með húsbændur sína til skips.

Jónas hefur haft miklar mætur á orðinu fagur. Hann notar brosfagur t.d. fjórum sinnum í brosfögur sól, brosfögur brúður, brosfögur mær og brosfagur röðull. Aðrar samsetningar með fagur eru ástfagur í ástfagur hljómur og ástfagur svipur, bakkafagur (bakkafögur á), bláfagur (bláfögur augu), borðfagur (borðfögur skeið), hárfagur (hárfögur sóley), heiðfagur (heiðfögur blóm), mundarfagur (mundfögur mey), rósfagur (rósfagur röðull), vonfagur (vonfögur blóm), fagurleiftrandi (fagurleiftrandi geislar) og fagurreifður (fagurreifður faldur). Ég nefni tvö dæmi. Annað er úr þýðingu á kvæðinu ,,Næturkyrrð“ eftir Heinrich Heine:

Hvað er það eg heyri?
hljómur ástfagur
og blíðmælt bergmál
í brjósti mínu;

Hitt er úr kvæðinu ,,Á sumardagsmorguninn fyrsta“:

Vorblómin, sem þú vekur öll
vonfögur nú um dal og fjöll,
og hafblá alda og himinskin
hafa mig lengi átt að vin.

Stjarna er enn eitt af þeim orðum sem Jónasi eru ofarlega í huga. Hann nefnir blástjörnu, guðsstjörnu, sjónstjörnu, vallarstjörnu, vegstjörnu og vonarstjörnu og síðan auðvitað ástarstjörnu sem þó er ekki upphaflega frá honum komin heldur er úr þýðingu Jóns Þorlákssonar á Paradísarmissi Miltons sem kom út 1828.

Ég læt eitt dæmi frá Jónasi nægja úr kvæðinu ,,Ferðalok“:


brosa blómvarir
blika sjónstjörnur
roðnar heitur hlýr.

Það eru einmitt nýju orðin, sem Jónas bjó til, sem gera það að verkum að ljóðin hans eru flestum auðskilin, þau skýra sig sjálf og orðin gæða myndirnar lífi.

Heimildir:

Ljóðadæmin eru fengin úr:

Jónas Hallgrímsson. Kvæði og laust mál. I–II. Iðunn, Reykjavík 1993.

Guðrún Kvaran

Fleiri orðapistlar