hamingja

Nútímafólki verður tíðrætt um hamingjuna, eftirfarandi dæmi um notkun orðsins eru öll frá seinni hluta 20. aldar:
 • Ég fann til mikillar hamingju og svolítils stolts
 • eru börnin því víða geislandi af gleði og hamingju.
 • Því skyldi ekki vera hægt að yrkja um hamingjuna eins og sorgina?
Í þessum dæmum virðist orðið hamingja haft um ‘gleði’ eða ‘sælu’ og er það trúlega algengasta merking orðsins nú á dögum. Þetta er þó ekki sú merking sem orðabækur telja fyrst, í Íslenskri orðabók (1983) er t.a.m. byrjað á að tíunda samheitin gæfa, gengi, gifta, heill, lán. Þarna styðst orðabókin við eldri notkun orðsins sem m.a. sést í eftirfarandi dæmum frá 19. öld og upphafi þeirrar 20.:
 • hann [...] þjónaði hreppstjórn [...] um 30 ár með miklum dugnaði og hamingju
 • Sumar konur höfðu svo ríka trú á hamingju og lagni föður míns við barnsfæðingar, að þær afþökkuðu ljósmæður
Sama er upp á teningnum í íslenskum fornbókmenntum, þar er langalgengast að hamingja merki ‘heill’ eða ‘gæfu’:
 • [Önnur] bréf skrifar hann vestur á landið til eins vinar síns er Hrafn hét, reyndur maður að dyggð og hamingju (Guðmundar saga biskups).
 • Vildi eg til þín hyrfi öll sú hreysti og hamingja, er mér hefir áður fylgt. (Göngu-Hrólfs saga)
 • "Þar er sá maður," svarar Starri, "er mér þykir ekki vinsæll og óvíst að honum fylgi hamingja". (Laxdæla saga)
 • þurfum vér nú þess mjög konungur að þú leggir hamingju þína á þessa ferð (Heimskringla)
Hin forna notkun orðsins ber einnig vitni um þá hugmynd að einstaklingurinn ráði litlu um hamingju sína, sumum fylgir mikil hamingja (ekki síst konungum) en öðrum minni. Þessi hugsun á væntanlega rætur að rekja til elstu merkingar orðsins hamingja, þ.e ‘verndarvættur, heilladís, fylgja’. Þessi merking kemur t.d. fram í eftirfarandi dæmum úr íslenskum þjóðsögum:
 • Fer þá skapanorn hans og hamingja og sækir geit þá er mjólkurmest var á kvíunum
 • „ég óska mér engra launa“ svaraði kerling, „því ég er hamingja þín“
Í Íslenskri orðsifjabók segir að orðið hamingja sé dregið af

*ham-(g)engja, af hamur og ganga, eiginl. ‘vættur sem tekur á sig ham eða gervi, fylgja’; hugsanlega merkir hamur hér ‘fósturhimna, fylgja’ sbr. d. og sæ. máll. ham (s.m.) og hamingja þá upphafl. heillavætti (í fósturhimnu) sem fylgir e-m frá fæðingu

Enn eimir eftir af hinni fornu merkingu í orðatiltækjum eins og „Það má hamingjan vita“ eða „Hamingjan hjálpi mér!“ Þar sem talað er um hamingjuna eins og persónu og hún jafnvel ávörpuð.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Textasafn Orðabókar Háskólans
 • Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. [Reykjavík] 1989.
 • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Reykjavík 1983.

Aðalsteinn Eyþórsson
júní 2002