Orðfræðisvið

Orðabók Háskólans

Á orðfræðisviði stofnunarinnar er unnið að margvíslegum fræðilegum og hagnýtum verkefnum sem snerta íslenskt mál og íslenskan orðaforða. Þar eru söfn Orðabókar Háskólans, sem geyma mikilvægar heimildir um orðaforðann frá siðskiptum til nútímans, varðveitt. Þau eru aðgengileg fyrir fræðimenn, stúdenta og almenning, bæði á vef stofnunarinnar og í seðlasöfnum í húsakynnum sviðsins. Jafnframt er unnið að frekari heimildasöfnun um orð og orðanotkun í rituðu og töluðu máli og að því að þróa nýjar aðferðir við efnisöflun og úrvinnslu. Áhersla er lögð á rannsóknir sem tengjast orðum og orðasamböndum, rannsóknir á orðaforðanum og þróun hans svo og rannsóknir í orðabókafræðum og máltækni.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er í forystu um nýjungar í orðabókagerð og starfmenn orðfræðisviðs búa yfir þekkingu og reynslu á því sviði. Þar er unnið að verkefnum á sviði orðabókagerðar og orðabókafræði, jafnt rannsóknum, þróunarstarfi og ýmsum hagnýtum verkefnum. Orðabók Háskólans varð snemma í forystu um nýtingu tölvutækni við rannsóknir og orðabókagerð og stofnunin heldur áfram þeim verkum sem þar var unnið að. Lögð er stund á hagnýt og fræðileg verkefni á sviði máltækni sem styðja málrannsóknir, orðabókagerð og þróun máltæknibúnaðar og afrakstur þeirra nýtist bæði innan og utan stofnunarinnar.