Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals

19. og 20. öld voru mikið breytingaskeið í íslensku samfélagi. Í upphafi tímabilsins var íslenska afskekkt minnihlutamál í Danaveldi en var í lok þess orðin þjóðtunga í sjálfstæðu ríki og þjónaði öllum þörfum samfélagsins. Slík stöðubreyting hlýtur að hafa áhrif á svipmót og notkun málsins. Vaxandi notkun þess á ólíkum sviðum kallaði á sameiginleg viðmið um góða málnotkun og málstöðlun í samræmi við þau. Meginviðfangsefni verkefnisins er að rannsaka tilurð slíkra viðmiða á 19. öld og málfræðilegar, málfélagslegar og hugmyndafræðilegar forsendur þess (hálf)opinbera málstaðals sem þá var að byrja að mótast.

Hugmyndir um íslenskt fyrirmyndarmál mótuðust mjög af fornmálinu og fólu m.a. í sér höfnun málafbrigða sem spruttu af síðari tíma breytingum og hreinsun málsins af erlendum áhrifum. Til grundvallar verkefninu liggja spurningar um eðli og framgang málbreytinga, bæði kerfislægra breytinga og þeirra sem spretta af sambúð við önnur mál, um tilbrigði í máli og samband þeirra við félagsmálfræðilega þætti og um áhrif málviðhorfa og málstýringar á þróun tungumálsins. Í brennidepli er spurning sem hefur almennt fræðilegt gildi: Er mögulegt að snúa málbreytingum við?

Verkefnið hlaut þriggja ára styrk Rannsóknarsjóði 2012-2014. Verkefnisstjóri er Ásta Svavarsdóttir.

Heimasíða verkefnisins