Málsöfn

Á orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru geymdar miklar heimildir um íslenskt mál og íslenskan orðaforða. Stofnunin varðveitir söfn Orðabókar Háskólans úr ritmáli og talmáli, viðheldur þeim og sér til þess að efniviðurinn sé aðgengilegur þannig að hann nýtist við rannsóknir á íslensku máli og orðaforða, við gerð orðabóka af ýmsu tagi og ritun handbóka og kennsluefnis. Söfnin eru opin fræðimönnum utan og innan stofnunar, námsmönnum og öllum almenningi. Komið hefur verið upp ýmsum rafrænum gagnasöfnum sem byggð eru á efniviði úr söfnunum til þess að greiða aðgang að þeim.

Á sviðinu er stöðugt unnið að öflun gagna um íslenskt mál, einkum með gerð rafrænna málsafna, og að þróun nýrra aðferða við efnisöflun og úrvinnslu efnisins.