Handlína og handlín

Upprunalega mun orðið handlína (kvenkyn) eða handlín (hvorugkyn) hafa verið haft um þann grip sem nú er nefndur vasaklútur en síðan hefur merking orðsins orðið sértækari. Greina má merkingu orðsins í sundur í nokkra þætti.


Eftirgerð Kristínar Bjarnadóttur af handlínu á Þjóðminjasafni (Þjms. 4524). Samfella: Kristín Bjarnadóttir. 1.
Orðið handlína eða handlín er haft um klút sem borinn er við gamla íslenska faldbúninginn og látinn hanga við beltið. Konur munu hafa lagt handlínuna yfir hendur sér er þær gengu til altaris.

Faldbúningurinn var í notkun fram á 19. öld og á myndum af honum sést handlínan oft vel (Sigrún Helgadóttir 2013). Hún er u.þ.b. 60 cm á kant, oft hvít og útsaumuð en einnig eru til mislitar handlínur úr silki á söfnum. Á Þjóðminjasafni eru yfir 20 útsaumaðar handlínur, yfirleitt úr hör og fagurlega skreyttar útsaumi af ýmsum gerðum, ýmist hvítum eða mislitum (Kristín Bjarnadóttir 2014). Í einni þeirra, handlínu Hólmfríðar Pálsdóttur (d. 1736), er sérstök gerð af íslenska krosssaumnum sem ekki finnst annars staðar hér á landi (sjá grein Elsu E. Guðjónsson í Hug og hönd 1986, bls. 18-21).

Í kvæði Sigurðar Guðmundssonar málara sem birt er í Um íslenzkan faldbúning eftir Guðrúnu Gísladóttur (1878) segir svo:

Brugðið sjest
undir belti hennar [þ.e. eykonunnar]
hvítri af hörvi
handlínu góðri
hreinni sem drif.
              (GGíslFaldb, 22)

 

Eftirgerð Kristínar Bjarnadóttur af handlínu á Þjóðminjasafni (Þjms. 3338). Samfella: Ingibjörg Ágústsdóttir. 2.
Handlínur eða handlín virðast einnig hafa verið hluti af messuskrúða presta. Í Sögu Íslands I, er að finna þessa lýsingu á gripnum:

handlín var borið [þ.e. af prestum] á vinstri framhandlegg og hafði upprunalega verið svitadúkur, en var nú orðið að útsaumuðu skrautbandi.
           (SÍsl I, 279)


Elsta dæmi í Ritmálssafni um þessa notkun orðsins er úr Biskupsskjalasafni frá 17. öld:

        þrennar stolur med handlinum.
                        (Bps AII 7, 135 (1662))


3.
Dæmi um orðin í merkingunni vasaklútur er að finna í skáldverkum frá síðari tímum, t.d. í þýðingu Matthíasar Jochumssonar á Hamlet og í Konunginum á Kálfskinni eftir Guðmund G. Hagalín:

  • Tak handlín þetta, Hamlet; þerrðu ennið. (MJÞLeik I, 175)
  • fröken Ragnheiður tók upp önnur gleraugu, en þau, sem hún hafði notað við lesturinn, þerraði þau á handlínu, eins og sagt var í denn tíð. (GHagalKon, 66)

Elsta dæmi um orðið vasaklútur í Ritmálssafni er frá 1728 og orðið virðist því vera yngra en orðin handlína og handlín.
 

4.
Í Vefaranum mikla frá Kasmír notar Halldór Laxness orðið handlín um ermalíningar eða manséttur:

  • Eftir nokkrar þöglar mínútur kipti hann handlíninu frá armbandi sínu og leit á úrið. (HKLVef, 40)
  • Handlínin á skyrtunni hans voru óhrein. (HKLVef, 140)

Í Ritmálssafni kemur þessi merking fram í 19. aldar dæmi um samsetta orðið handlínsknappur í bókinni Ég læt allt fjúka eftir Ólaf Davíðsson.
 

5.
Loks er þess að geta að orðið handlína er haft um e.k. reipi, t.d. í Þjóðsögum Jóns Árnasonar:

  • Rennir hann sér þá ofan á handlínu í einum svip. (JÁÞj2 IV, 163)


Heimildir

Elsa E. Guðjónsson. 1986. Hefur saumað hvert eitt spor. Krossspor Hólmfríðar Pálsdóttur. Hugur og hönd. 1986. 1821.
Kristín Bjarnadóttir. 2014. Eitt spor og svo annað ...: Um útsaumaðar handlínur. Erindi á málþingi um vefnað og hannyrðir fyrr á öldum. Þjóðminjasafn Íslands, 22. mars 2014.
Ritmálssafn Orðabókar Háskólans og heimildir sem þar er vísað til.
Sigrún Helgadóttir. 2013. Faldar og skart. Opna og Heimilisiðnaðarfélag Íslands, Reykjavík.

Pistill þessi birtist upprunalega sem orð vikunnar hjá Orðabók Háskólans í febrúar 2004 en hefur verið breytt dálítið.

Myndir: Eftirgerðir Kristínar Bjarnadóttur af handlínum á Þjóðminjasafni (Þjms. 3338 og Þjms. 4524, handlína Hólmfríðar Pálsdóttur). Samfellur: Ingibjörg Ágústsdóttir og Kristín Bjarnadóttir.

Kristín Bjarnadóttir
febrúar 2004/ágúst 2015