Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri: Tilurð, samhengi og söfnun 1864–2014 (English version)

Aðalmarkmið þessa þriggja ára verkefnis er að fjalla ítarlega um söfnun og útgáfu þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862–1864) og annað tengt efni með því að búa til ítarlegt, aðgengilegt og notendavænt stafrænt gangasafn með fræðilegri umfjöllun og beinum tengingum við önnur skyld gagnasöfn, bæði íslensk og erlend. Þar er um að ræða stafræn handrita- og bókasöfn, gagnagrunna og vefsíður.

Árið 2014 voru 150 ár liðin frá því að lokabindi 1. útgáfu þjóðsagnasafnsins kom út og auk þess er ætlunin að verkefnið verði stór þáttur í þeim alþjóðlegu viðburðum sem munu fara fram í tilefni af 200 ára afmæli útgáfu Grimmsbræðra Deutsche Sagen árið 2016. Hið mikilsmetna verk Jóns Árnasonar verður skoðað fyrst og fremst með því að beina ljósi að hinu þjóðernislega samhengi, sem hluta af hreyfingu sem miðaði að því að skapa grundvöll þjóðmenningar og endurspeglast m.a. í baráttu Sigurðar Guðmundssonar málara fyrir stofnun þjóðleikhúss, þjóðminjasafns og tilurðar þjóðbúnings. Ekki er síður mikilvægt að setja þjóðsagnasöfnunina í alþjóðlegt samhengi með því að skoða hana í tengslum við það sem gerðist hjá nágrannaþjóðunum þar sem söfnun hafði hafist eftir að Deutsche Sagen kom út 1816. Þetta stafræna safn mun verða hluti af stærra alþjóðlegu verkefni ‘Grimm Ripples’ sem nú er í undirbúningi og mun styrkjast enn frekar af tveimur ráðstefnum með þátttöku erlendra gesta sem taka þátt á því verkefni. Einnig er áætlað að gefa út bók um efnið.