Icelandic Online

Námskeiðið Icelandic Online, er sjálfstýrt vefnámskeið í íslensku sem erlendu máli. Icelandic Online I er mikilvægur undanfari annarra tungumálanámskeiða á vegum stofnunarinnar en það var tekið í notkun 2004. Icelandic Online 2 var tilbúið 2005. Icelandic Online 3 og 4 voru tilbúin 2010 og Icelandic Online 5 árið 2013. Icelandic Online er samfellt námskeið sem byggist á myndrænu og gagnvirku námsefni og samsvarar hvert námskeið 45-90 klukkustunda námi. Námskeiðinu fylgir málfræði- og orðabókargrunnur, sem er lagaður að námsefninu og þörfum nemenda.

Icelandic Online er öllum opið og er aðgangur ókeypis. Námskeiðið er einkum ætlað erlendum háskólanemum en einnig öðrum sem áhuga hafa á íslensku máli og menningu, bæði  erlendis og hér á landi. Nemendur sem taka þátt í sumarnámskeiðum í íslensku á vegum hugvísindadeildar og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þurfa að hafa lokið Icelandic Online 1.

Á árinu 2006 var efnið þróað til notkunar við fjarkennslu og hefur Tungumálamiðstöð Háskólans boðið upp á fjarnám í tengslum við efnið síðan þá. Nú er unnið að þróun námsmats og prófa.

Námskeiðið er þróað af kennurum og nemendum Háskóla Íslands í samvinnu við íslenskulektora við fimm evrópska háskóla og Háskólann í Wisconsin í Bandaríkjunum, en sá skóli veitir aðgang að rafrænni íslensk-enskri orðabók.

Nú hafa námskeiðin verið endurforrituð. Slóðin er: icelandiconline.com

Að verkefninu standa íslensku- og menningardeild HÍ, Hugvísindastofnun, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Stofnun Sigurðar Nordals).

Verkefnið hefur verið styrkt af Lingua-áætlun Evrópusambandsins, Nordplus, Háskóla Íslands, Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.