Handritasafn

AM 350 fol 2. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

Að lokinni afhendingu handritanna frá Danmörku árið 1997 eru í handritasafni stofnunarinnar 1666 handrit og handritahlutar úr safni Árna Magnússonar, prófessors í Kaupmannahöfn og handritasafnara (1663–1730) , auk 1345 íslenskra fornbréfa í frumriti og 5942 fornbréfauppskrifta (safnmörk: AM, AM Dipl. Isl. Fasc. og AM Dipl. Isl. Apogr.). Til viðbótar er 141 handrit úr Konungsbókhlöðu (safnmörk:  GKS, NKS og  KBAdd.). Frá öndverðu var um það samið að afhendingin gæti tekið um aldarfjórðung, enda voru öll handrit ljósmynduð fyrir afhendingu og gert við mörg þeirra. Afhendingu handritanna lauk 19. júní 1997 þegar rúm 26 ár voru frá komu þeirra fyrstu til landsins 21. apríl 1971.

Handrit úr einkasöfnum hafa borist stofnuninni til varðveislu; handritasafn Bjarna Þorsteinssonar (safnmark BÞ (hefur verið fært undir SÁM 120.1-8)), Konráðs Gíslasonar (safnmark KG), Magnúsar Stephensen (safnmark Steph), Stefáns Eiríkssonar (safnmark StE) og Þorsteins M. Jónssonar (safnmark ÞMJ).

Stofnunin hefur einnig fengið að gjöf allmörg handrit og handritsbrot sem verið hafa í einkaeigu og einnig hafa verið keypt nokkur handrit sem boðin hafa verið til kaups erlendis. Þessi safnauki er skráður undir safnmarkinu SÁM og telur nú 121 númer. Kunnast þeirra er Skarðsbók postulasagna, skinnbók frá 14. öld (SÁM 1) sem var keypt til landsins frá Lundúnum 1965.

Fjöldi íslenskra handrita er varðveittur í erlendum söfnum. Langflest hin elstu þeirra hafa verið í Danmörku og Svíþjóð, og þar eru einnig fjölmörg handrit frá síðari öldum. Íslensk handrit eru einnig ófá á Bretlandseyjum og í Noregi og fáein í öðrum löndum. Á fyrstu árum Handritastofnunar fóru starfsmenn hennar, Jónas Kristjánsson, Ólafur Halldórsson og Jón Samsonarson, með stuðningi UNESCO í skráningarleiðangra í allmörg erlend söfn þar sem skrár um íslensk handrit voru ófullkomnar eða engar.

Þann 31. júlí 2009 setti Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, handritasafn Árna Magnússonar á sérstaka varðveisluskrá sína, minni heimsins (Memory of the World Register).