Um fyrstu prentuðu útgáfur fornrita

Brynjólfur biskup Sveinsson var áhugamaður um að prenta íslensk handrit á Íslandi en tókst ekki að fá prentleyfi til þess vegna ofríkis aðstandenda Hólaprentsmiðju. Í Danmörku var sóst eftir íslenskum handritum og árið 1656 skrifaði Brynjólfur Villum Lange, bókaverði konungs, bréf þar sem hann lagði áherslu á nauðsyn þess að láta prenta fornritin svo að þau kæmust aftur í hendur þjóðarinnar sem ól  þau. Bréf þetta er á latínu en þar segir meðal annars í íslenskri þýðingu:

Ef þetta verður ekki gert án tafar þá munu bækurnar fyrr en varir glatast ytra, líkt og í útlegð á eyðieyju, og hér munu glatast þeir örfáu skynsömu lesendur sem eftir eru ef þeir fá engar bækur. Og þær munu aldrei síðan verða nokkrum manni að gagni því að sérhvert loftslag og jarðvegur er með sínum hætti svo að þær jurtir spretta og blómgast sem þar hafa vaxið upp þó að þær deyi séu þær fluttar í annan jarðveg, jafnvel þótt hann sé frjósamari og í mildara loftslagi. Svo er um það litla sem eftir er af fornum frásögnum norðurálfu. Ef þær fá ekki að festa rætur hér heima þó að hægt sé að geyma bækurnar á glæsilegri stað annars staðar þá munu þær aldrei skjóta þar rótum og aldrei sjúga til sín þann safa sem þær ná að blómgast af þá munu þær glatast þar sem ekki er hlúð að þeim af mönnum sem til þekkja, og hér mun ræktunarkunnáttan tapast niður ef hún fær ekkert verkefni sem hægt er að beita henni við.

 

Mynd af fyrstu útgáfu Landnámubókar

Sagan Landnáma. Um fyrstu bygging Íslands af Norðmönnum

- Skálholti 1688

Árið 1688 voru íslensk fornrit gefin út í fyrsta sinn hér á landi, af Skálholtsprentsmiðju. Það voru Landnámabók, Íslendingabók Ara fróða og Kristni saga. Landnámabók var gefin út fyrst þeirra af Einari Eyjólfssyni en prentari var Hendr. Kruse. Í formála segir Þórður byskup Þorláksson að svo sé Guði fyrir þakkandi að hér á landi sé þegar góð gnægð af andlegum bókum en með því hann merki að landsmenn sumir girnist líka að fá gamlar historiur og fræðibækur þá hafi hann látið þessa gömlu sögubók á prent út ganga.

 

eddaIslandorum

Edda Islandorum

- Kaupmannahöfn 1665

Í Danmörku birtist hið fyrsta sem prentað var úr íslenskum fornritum, Höfuðlausn Egils og Krákumál, í riti Ole Worm um rúnir árið 1636. Árið 1665 kom Snorra-Edda þar út í fyrsta sinn í útgáfu Peders Resen prófessors. Snorra-Edda í þessari gerð er kölluð Laufás-Edda eftir sr. Magnúsi Ólafssyni í Laufási sem umskrifaði hana 1609. Ekki gáfu Danir út fleiri íslensk fornrit á 17. öldinni.

 

svithjod

Útgáfur í Svíþjóð 

Mikill fornfræðaáhugi kom upp í Svíþjóð á 17. öld og þar kom út fyrsta íslenska fornsagan, Gautreks saga og Hrólfs saga Gautrekssonar, árið 1664, í útgáfu Verelíusar, prófessors í fornfræði föðurlandsins. Svíar gáfu út mörg íslensk fornrit næstu 100 árin, einkum fornaldarsögur og konungasögur, en þar segir nokkuð frá sænskum fornkonungum. Í útgáfum Svía fylgdi þýðing á latínu eða sænsku íslenska textanum sem þeir sögðu vera á forngausku. Árið 1737 kom út í Stokkhólmi Nordiska kämpa dater sem í eru, auk ýmissa sagna, fyrstu veraldlegu rímur sem prentaðar voru, Rímur af Karli og Grími Svíakonungum og af Hjálmari Hárekssyni á Bjarmalandi. Útgefandi var E. J. Björner.

 

ljosprent

Ljósprentanir af handritum

Frá því seint á 19. öld hefur tíðkast að birta ljósprentanir af íslenskum handritum, fyrst af einstökum síðum en svo heilum handritum. Fyrsta íslenska handritið sem kom út ljósprentað í heild var Elucidarius árið 1869 í umsjá Konráðs Gíslasonar. Fleiri fylgdu í kjölfarið og á árunum 1930-1956 gaf Einar Munksgaard, bókaútgefandi í Kaupmannahöfn, út 20 binda ritröð ljósprenta af íslenskum handritum: Corpus Codicum Islandicorum Medii Ævi. Þegar þeirri útgáfu lauk hóf Munksgaard útgáfu á nýjum flokki ljósprentana: Manuscripta Islandica, sem komið hefur í sjö bindum, árin 1954-1966. Rosenkilde og Bagger í Kaupmannahöfn hófu árið 1958 útgáfu á ljósprentum undir heitinu Early Icelandic Manuscripts, sem nú eru orðin 18 bindi. Háskóli Íslands og síðan Stofnun Árna Magnússonar hafa frá 1956 gefið út sjö bindi í röðinni Íslensk handrit og Stofnun Árna Magnússonar í samvinnu við Lögberg hefur gefið út tvö ljósprentuð handrit í röðinni Íslensk miðaldahandrit (Manuscripta Islandica Medii Ævi), Skarðsbók árið 1981 og Helgastaðabók árið 1982.