eTranslation Term Bank (eTTB) – rafrænt íðorðasafn fyrir þýðingar

Síðastliðið haust hófst samevrópskt verkefni á vegum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um aukna sjálfvirkni í þýðingum og aukin gæði í þýðingum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tekur þátt í verkefninu af hálfu Íslands og sér um stjórn og framkvæmd þess hér á landi. Auk Íslands taka sjö aðrar Evrópuþjóðir þátt í verkefninu, þ.e. Danmörk, Svíþjóð, Austurríki, Slóvenía, Eistland, Litháen og Lettland, sem jafnframt fer með verkefnisstjórn í heild. Verkefnið nær til allra opinberra tungumála Evrópusambandsins auk norsku og íslensku.

Meginmarkmið þessa verkefnis er að safna íðorðamálgögnum (e. terminological resources) í þessum átta löndum sem varða rafræna opinbera þjónustu. Safnað verður gögnum á þremur sviðum, þ.e. í heilbrigðismálum, fjármálum og neytendavernd sem unnt verður að vinna margmálaíðorðasöfn úr.

Þau gögn sem safnað verður munu verða nýtt til að þróa sjálfvirkni í þýðingum og auka gæði í þýðingum. Jafnframt stuðlar verkefnið að bættu aðgengi almennings að þjónustu milli tungumála og málsvæða. Einnig gefst færi á að fá yfirlit yfir íðorðagögn hjá ýmsum opinberum aðilum og kortleggja íðorðaforða á þessum þremur sviðum.