Beygingarlýsing íslensks nútímamáls

Vinna við Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN) hófst árið 2002 hjá Orðabók Háskólans. Beygingarlýsingin er safn beygingardæma á tölvutæku formi sem er grunnur að ýmiss konar tungutækniverkefnum en jafnframt er efnið birt á vefsetri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og gagnast þar með almennum notendum.

Markmið

Upphaflegt markmið með verkefninu var að koma upp beygingarlýsingu á tölvutæku formi til nota í ýmiss konar tungutækniverkefni en ítarleg beygingarlýsing er grundvöllur að vélrænni greiningu á íslenskum textum og nauðsynlegur undanfari orðflokkagreiningar og setningagreiningar.

Efnið

Orðaforðinn í BÍN er aðallega úr almennu nútímamáli, auk mannanafna og örnefna. Dálítið er af orðum og orðmyndum úr eldra máli, ef ætla má að orðin komi fyrir í nútímamáli.

Við birtingu beygingardæmanna er markmiðið að einskorða efnið við raunverulegar myndir hvers orðs, þ.e. að sýna afbrigði þar sem það á við en fylla ekki upp í beygingardæmi með tilbúnum myndum. BÍN er byggð á tiltækum heimildum um beygingakerfið og rannsóknum á einstökum orðum í gagnasöfnum Orðabókarinnar og víðar.

Aðgangur að efni úr BÍN

Rétthafi BÍN er Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem sér um viðhald og dreifingu BÍN, samkvæmt samningi menntamálaráðuneytisins við Orðabók Háskólans frá 2005. Öll afritun efnis úr BÍN án skriflegs leyfis er bönnuð.

Sjá nánar um Beygingarlýsinguna