Athugum málið!

Ábendingar um íslenskt mál og málfar. Ari Páll Kristinsson tók saman


Aðlögun tökuorða | Beyging | Forsetningar með staðanöfnum | FramburðurFöst orðasambönd | Nýyrði | Orð og merking | Orðmyndun | Orðsifjar | Ritháttur | Setningarleg atriði
 

Aðlögun tökuorða

1
Sum orð, sem komu upphaflega inn í íslensku úr erlendum málum, hafa verið svo vel aðlöguð að við finnum ekki fyrir erlendum uppruna þeirra lengur. Orðið keðja er kunnugt frá 16. öld, tökuorð úr dönsku. Það er brýnt að gera orð, sem tekin eru úr erlendum málum, eins íslenskuleg og hægt er.

2
Í nýrri skrá um íslensk heiti á gjaldmiðlum má sjá góð dæmi um hvernig hægt er að laga erlend heiti að íslenskum rithætti og framburði. Lítum á fáein dæmi:

denari, kk. (erl. Denar, Dinar) - (Heimkynni: Alsír, Barein, Bosnía og Hersegóvína, Írak, Jórdanía, Júgóslavía, Kúveit, Líbía, Makedónía, Súdan, Túnis)
fórinta, kv. (erl. Forint) - (Heimkynni: Ungverjaland)
peseti, kk. (erl. Peseta) - (Heimkynni: Andorra, Spánn)
skúti, kk. (erl. Escudo) - (Heimkynni: Austur-Tímor, Grænhöfðaeyjar, Portúgal)

Beyging

1
Orðið jöfnuður er í eignarfalli jafnaðar (en ekki „jöfnuðar“). Þetta sést m.a. í orðunum jafnaðarstefna, jafnaðarmaður o.fl.

Munum einnig réttar eignarfallsmyndir orða með sams konar beygingu og orðið jöfnuður: (til) safnaðar, mánaðar, saknaðar, fagnaðar o.s.frv.

2
Orðið hundrað beygist svo:

Eintala Fleirtala
hundrað
hundrað
hundraði
hundraðs
hundruð
hundruð
hundruðum
hundraða

 

 

 

 

Eins og sjá má beygist hundrað líkt og orðið hérað. Athuga skyldi sérstaklega að nefnifall fleirtölu er hundruð, sbr. héruð , en ekki „hundruðir“ - og eignarfall fleirtölu er (til) hundraða , sbr. héraða, en ekki „hundruða“.

3
Hyggjum að beygingu frændsemisorðanna: móðir, systir, dóttir, faðir, bróðir. Þau eiga alltaf að enda á -ur í aukaföllum í eintölu.

Talaðu við móður þína, systur þína, dóttur þína, föður þinn og bróður þinn.
Vertu hjá móður þinni, systur þinni, dóttur þinni, föður þínum og bróður þínum.
Hugsaðu til móður þinnar, systur þinnar, dóttur þinnar og föður þíns.

4
Orðið mær beygist samkvæmt uppruna á þessa leið:

mær, um mey, frá meyju (eða mey ), til meyjar;
meyjar, um meyjar, frá meyjum, til meyja.

Dæmi: Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala (Mt 1,23); ... en mærin hét María (Lk 1,27).

Til eru nokkur samsett orð þar sem -mær er síðari liður, t.d. dansmær, smámær, ungmær o.fl., og þar verður einnig að huga að beygingu liðarins -mær:
vinur ungmeyjarinnar, dansmeyjarnar skemmtu o.s.frv.

Einnig er til, í stað mær, orðmyndin mey í nefnifalli (t.d. María mey) en allar aðrar beygingarmyndir eru þó eins.
Þá má nefna orðið meyja sem beygist eins og orðið blæja.
Orðmyndin mey í nf. og orðið meyja urðu til úr aukaföllum orðsins mær.

5
Orðið megin er til í merkingunni „máttur, afl“ (sbr. orðasambandið trúa á mátt sinn og megin ) eða „aðalhluti einhvers“ (t.d. meginið (= megnið) af framleiðslunni) og beygist svo: megin, um megin , frá megni, til megins.

Einnig er orðið megin til í orðasamböndunum báðum megin, hinum megin, hvorum megin, hægra megin, öðrum megin o.s.frv., e.t.v. ummyndað úr orðinu vegum (þgf. ft. af vegur).

Megin- er algengur forliður í orðum, sbr. megintilgangur, meginniðurstaða o.s.frv. Ath. að forliðinn megin- ber að rita áfastan (sbr. megintilgangur, ekki „megin tilgangur“).

6
Stundum er tölubeyging nafnorða „ósýnileg“ ef svo má segja, þ.e. það sést þá ekki á orðinu sjálfu (í nefnifalli án greinis) hvort það er í eintölu eða fleirtölu.
Dæmi: hús (eitt eða mörg), kvæði (eitt eða mörg) o.s.frv.
Fleirtala getur birst þannig að eitt eða fleiri hljóð breytast inni í orði, t.d. barn (eintala) - börn (fleirtala).
Algengast er þó að tölubeyging komi fram aftast í orðum: stofa - stofur, nál - nálar, penni - pennar, gestur - gestir o.s.frv.
Þá geta jafnframt orðið breytingar inni í orðunum: bók - bækur, fjörður - firðir o.s.frv.

7
Sögnin senda (t.d. bréf) á að hafa d í þátíð (ég sendi bréfið í gær), einnig miðmyndin sendast „fara sendiferðir“ (hún sendist fyrir kaupmanninn í fyrra).

Hins vegar er t í þátíð so. senda þegar hún merkir „kasta“ (t.d. spjóti) og í mm. sendast „hendast áfram“
(hann sentist (eða endasentist) niður hlíðina ).

Fleiri sagnir með nd í nafnhætti sem fá t í þátíð:
afhenda - afhenti; endast - entist; benda - benti;
henda - henti; hendast - hentist; kynda - kynti;
lenda - lenti; synda - synti.

8
Veikar sagnir, sem enda á -ja í nafnhætti, enda stundum á -ur í lýsingarhætti þátíðar, t.d. spurður (af spyrja), en annars oftast á -inn, t.d. taminn, krafinn, hruninn, talinn (af temja, krefja, hrynja, telja).
Dæmi um beyginguna:
(þær eru) tam-d-ar, kraf-ð-ar, hrun-d-ar, tal-d-ar .

Beyging þessara lýsingarhátta er svolítið frábrugðin beygingu margra lýsingarorða sem enda á -inn, t.d. fyndinn, hlýðinn, og beygingu lýsingarhátta af sterkum sögnum, t.d. grafinn, skorinn.
Dæmi:
(þær eru) fynd-n-ar, hlýð-n-ar, graf-n-ar, skor-n-ar .

9
Miklu skiptir að rétt sé farið með nöfn fólks og að þau séu beygð eftir því sem við á.

Kvenmannsnöfnin Huld og Hulda beygjast ekki eins þótt lík séu. Beyging þeirra er á þessa leið:
Huld, um Huld, frá Huld, til Huldar.
Hulda, um Huldu, frá Huldu, til Huldu.

10
Karlmannsnöfnin Örn og Arnar eru áþekk, einkum í eignarfalli.
Nafnið Örn beygist svo: um Örn, frá Erni, til Arnar.
Nafnið Arnar beygist svo: um Arnar, frá Arnari , til Arnars.
Börn Arnar eru Arnardóttir og Arnarson; börn Arnars eru Arnarsdóttir og Arnarsson.

11
Lýsingarorðið árvakur er haft um þann sem vaknar árla eða er aðgætinn. Orðið kemur fyrir í Arinbjarnarkviðu Egils Skalla-Grímssonar:

Var eg árvakr
bar eg orð saman
með málþjóns
morgunverkum.

Lýsingarorðið árvakur beygist eins og orðin fagur, dapur, magur, vakur (um hest) o.s.frv.: Hann er árvakur, hún er árvökur, það er árvakurt, þeir eru árvakrir, þær eru árvakrar, þau eru árvökur. Við þurfum árvakra menn og árvakrar konur ...

Orðið Árvakur er einnig til sem sérnafn. Svo heitir í Snorra-Eddu annar hestanna sem draga kerru sólarinnar.
Nafnið Árvakur beygist eins og Baldur.

Forsetningar með staðanöfnum

Forsetningar með staðanöfnum geta vafist fyrir þeim sem eru ekki staðkunnugir. Fólk er t.d. stundum í vafa um hvort rétt er að nota í eða á með víkur-heitum. Styðjast má við þá reglu að nota í með heitum á þéttbýlisstöðum frá Vík í Mýrdal vestur og norður um land til Ísafjarðardjúps en á með slíkum nöfnum frá og með Hólmavík austur og suður um land suður undir Skaftafellssýslu.
Í Vík í Mýrdal, í Grindavík, í Keflavík, í Njarðvík, í Reykjavík, í Ólafsvík, í Bolungarvík, í Súðavík.
Á Hólmavík, á Dalvík, á Grenivík, á Húsavík, á Breiðdalsvík.

Framburður

1
Í feitletruðu orðunum hér á eftir ætti ekki að vera ð-hljóð í vönduðum framburði:
Hjónin skoðuðu hæstu byggingarnar og stærstu borgirnar.

2
Vandaður framburður er skýr og með hóflegum talhraða í samræmi við aðstæður.
Hann er einnig laus við framburðarnýjungar sem gætu spillt málkerfinu (t.d. „tsjald“ í stað tjald, „hast“ í stað hæst, „tvu“ í stað tvö).

3
Framburður hljóða, atkvæða og orða aðlagast að jafnaði á ýmsan hátt í eðlilegu, samfelldu tali án þess að um sé að ræða óvandaðan framburð. Eðlilegur, vandaður framburður getur ekki miðast eingöngu við rithátt orðanna. Spurninguna: Ertu að koma í bæinn? þarf ekki endilega að bera fram með u í Ertu og a í koma. Það er eðlilegur framburður að segja: Ert‘ að kom‘ í bæinn?

4
Lokhljóðið p í orðinu páfi er kallað fráblásið eða hart lokhljóð. Lokhljóðið b í orðinu bíll er kallað ófráblásið eða lint lokhljóð. Inni í orðum, á eftir löngum sérhljóðum, bera sumir Íslendingar fram hart, fráblásið lokhljóð en aðrir lint, ófráblásið lokhljóð þar sem ritað er p, t eða k. Dæmi: api, láta, vaka. Það er kallað harðmæli þegar orð af þessu tagi eru borin fram með fráblásnum eða hörðum lokhljóðum en linmæli þegar framburður slíkra orða er eins og ritað væri b, d eða g. Harðmæli er algengast á austanverðu Norðurlandi.

Föst orðasambönd

1
Orðasambandið taka eitthvað traustataki merkir strangt til tekið að taka eitthvað án leyfis en í trausti þess að leyfi hefði fengist. Það er sem sé gerður greinarmunur á merkingu þessa orðasambands og þess að taka eitthvað ófrjálsri hendi.

2
Orðasambandið gera grein fyrir einhverju (skýra eitthvað) er alþekkt og oft notað
(einnig gera sér grein fyrir einhverju (skilja eitthvað)).

Hún gerði grein fyrir skoðun nefndarinnar. Hann gerði gestinum grein fyrir aðstæðum.

Grein er kvenkynsorð; greinin er gerð (fyrir einhverju).

Gerð var grein fyrir skoðun nefndarinnar. Gestinum var gerð grein fyrir aðstæðum.

Orðmyndin gert fylgir næst á eftir sögninni hafa.
Við höfum gert ráðstafanir.
En: Gerðar voru ráðstafanir.
Við höfum gert grein fyrir þessu.
En: Gerð var grein fyrir þessu.

3
Til eru feiknamörg orðatiltæki í íslensku. Þau geta verið einn litríkasti þáttur málsins.

Dæmi um orðatiltæki: Eitthvað er í skötulíki. Það merkir að engin mynd sé á einhverju eða að það sé ekki raunverulegt. Líkingin virðist dregin af hugmyndum manna um sérkennilega sköpun eða lögun skötunnar, segir í orðatiltækjasafninu Merg málsins. Þar er einnig að finna þetta dæmi: Rökstuðningur nefndarinnar er allur í skötulíki, ónógur og lítt sannfærandi.

4
Stundum verður mönnum á að blanda saman tveimur eða fleiri orðatiltækjum svo að úr verður afbökun, t.d. „sitja eftir með súrt enni(ð)“ í stað sitja eftir með sárt enni(ð). (Hins vegar: verða að bíta í það súra epli!)
Handbækur sýna uppruna og rétta notkun orðatiltækja og þar má sjá ýmis góð orðatiltæki sem eru sjaldan notuð.

Dæmi: skáka í því hróksvaldi (líkingin er fengin úr skákmáli). Orðatiltækið merkir „gera eitthvað í trausti einhvers (af þótta eða mikilmennsku)“.

Nýyrði

1
Nýsköpunarmáttur tungumálsins er ótrúlega mikill. Mörg orð, sem við notum frá degi til dags, eru nýyrði, mynduð á 19. og 20. öld. Fáein dæmi:
Sjónvarp, togari, róttækur, vélsmiðja, framfærsluvísitala, flugvél, geisladiskur.

2
Ný tækni kallar sífellt á ný íslensk orð.
Nú er stundum rætt um svonefnt „pay per view“ fyrirkomulag í sjónvarpi, þ.e. það að áhorfandi getur valið sér tiltekið efni úr dagskrá sjónvarps og greitt aðeins fyrir það.
Þetta hefur verið nefnt á íslensku kjörvarp, þáttasala, þáttasölusjónvarp eða valsjónvarp.

3
Jónas Hallgrímsson fæddist 16. nóvember 1807. Ríkisstjórnin ákvað árið 1995 að 16. nóvember ár hvert yrði dagur íslenskrar tungu og helgaður rækt við hana.
Fer vel á því að tengja slíkan dag minningu Jónasar enda hafði hann sterk áhrif á menningarsögu Íslendinga. Alkunnur er skáldskapur Jónasar og framlag þeirra Fjölnismanna til sjálfstæðisbaráttunnar.

Jónas Hallgrímsson bjó til ýmis nýyrði og skulu nokkur þeirra nefnd hér til gamans:
aðdráttarafl, fjaðurmagnaður, hitabelti, ljósvaki, sjónarhorn, sjónauki (Jónas notaði þetta orð reyndar sjálfur um það sem nú heitir smásjá), sólmyrkvi, sporbaugur.

4
Stundum þarf að þýða enska orðið portable .
Í enskri orðabók má sjá þessar leiðir til þess: flytjanlegur, auðflytjanlegur, ferða- (t.d. ferðaritvél).
Þarna gæti lýsingarorðið handbær stundum komið sér vel. Það merkir:
„handhægur; léttur í vöfum; sem er alltaf til taks; borinn í hendi eða í höndunum, tiltækur“ (Íslensk orðabók).
Þannig getur orðið handbær nýst til að lýsa þeim eiginleika hlutar að hægt er að bera hann á sér eða grípa til hans.
Dæmi um notkun: handbært rafeindatæki, handbært súrefnistæki ...

5
Orðið birgir er nýyrði í íslensku (= birgðasali, á ensku: supplier).
Í eintölu beygist það eins og karlmannsnafnið Birgir.
Í fleirtölu er beygingin svona: birgjar, um birgja , frá birgjum, til birgja.

6
Á síðustu árum hafa verið búin til mörg íslensk orð í stað erlendra orða um ýmsa nýja hluti og hugtök. Hér koma dæmi; byrjum á nokkrum orðum sem flestir þekkja: sjónvarp, greiðslukort, endurvinnsla, þolfimi, staðall, skyndibitastaður ...

Lítum nánar á tvö nýleg orð:
margmiðlun („það að nota tölvu til að miðla upplýsingum með texta, hljóði, kyrrmyndum, hreyfimyndum o.s.frv.“)
einstaklingsmiðlun („það þegar hver notandi getur stuðst við þar til gerðan tölvubúnað og valið sér dagskrárefni eftir eigin óskum og hentugleikum“)

7
Fleiri dæmi um nýleg orð: dagrétta (sögn), dagréttur (lýsingarorð). Sögnin dagrétta merkir hið sama og enska sögnin update, þ.e. breyta með tilliti til nýrra upplýsinga. Við dagréttum tiltekin gögn. Samsvarandi lýsingarorð er dagréttur . Gögn eru dagrétt ef þau taka til nýjustu upplýsinga á hverjum tíma (sbr. e. up to date).

Orð og merking

1
Orðið hvor er haft um annan af tveimur en hver um einn af þremur eða fleiri:
Hvor þeirra ók bílnum, Gunna eða Sigga?
Þríburarnir fengu hver sína gjöf.

2
Orðið snurða merkir hnökri. Þegar einhver vandræði verða er sagt að snurða hlaupi á þráðinn. Annars gengur allt snurðulaust.

3
Ekki ætti að rugla saman orðunum vetfang og vettvangur .
Þetta gerðist í einu vetfangi.
Málið hefur verið rætt á þessum vettvangi.

4
Það hefur aðra merkingu þegar sagt er tveir skór en þegar sagt er tvennir skór.
Jón á eftir að bursta tvo skó, annan á hægri fót og hinn á vinstri fót.
Jóna á tvenna spariskó, aðra rauða og hina svarta.

5
Orðið leikmaður merkir m.a.:
„leikur maður, sá sem er ekki fagmaður eða sérfræðingur; óprestlærður maður“ (Íslensk orðabók).
Lýsingarorðið leikur (beygist eins og lo. bleikur ) merkir „ó(prest)lærður“
og er vel þekkt í samstæðunni leikir og lærðir (= leikmenn og lærdómsmenn).

Orðmyndun

Sá sem bakar er bakari,
sá sem nemur er nemandi,
sá sem læknar er læknir,
sá sem rænir er ræningi,
sá sem sendist er sendill,
sá sem kannar er könnuður.

Þannig eru gerandnöfn oft mynduð með viðskeytunum -ari, -andi o.s.frv.

Gerandnöfn má líka setja saman úr tveimur eða fleiri stofnum og hafa síðari liðinn t.d. -maður eða -stjóri:
mælingamaður, framkvæmdastjóri .

Orðsifjar

1
Orðafjölskylda: Eftirtalin orð eru, ásamt öðrum, af einni og sömu rót:
bogi - boginn - bogna - bogra
- baugur
- beygja - beygur - beygla
- buga - bugur
- bjúgur - bjúga

2
Lítum á fáein skyld orð:
Sögnin angra („hryggja, gera einhverjum ama“) er leidd af nafnorðinu angur („hryggð, sorg, iðrun“) sem er skylt nafnorðinu öng („þrengsli, klípa“), sbr. orðasambandið vera í öngum sínum („vera í vandræðum, vera hryggur“). Til er lýsingarorðið öngur (sem m.a. merkir „þröngur“) og af því eru leiddar samsetningarnar öngvegi („mjór stígur“), öngvit („óvit, yfirlið“), öngþveiti („þröng, ógöngur“). Skyld þessum orðum er sögnin engja („þrengja, kreppa“), sbr. orðasambandið engjast sundur og saman.

Ritháttur

1
Lýsingarorð um þann sem kenndur er við land eða stað ber að rita með litlum upphafsstaf þótt heiti staðarins sé ritað með stórum staf.
Dæmi: belgískur (sbr. Belgía), enskur (sbr. England), kínverskur (sbr. Kína), reykvískur (sbr. Reykjavík), hornfirskur (sbr. Hornafjörður), mývetnskur (sbr. Mývatn) o.s.frv.

2
Í íslensku ritmáli er hafður punktur á eftir raðtölum.
1. (= fyrsti), 2. (= annar), 27. (= tuttugasti og sjöundi) o.s.frv.
EKKI er hafður punktur hér:
1 (= einn), 2 (= tveir), 27 (= tuttugu og sjö) o.s.frv.
Í tugabrotum á að nota KOMMU í íslensku ritmáli en ekki punkt:
1,7 (= „einn komma sjö“), 4,23 (= „fjórir komma tuttugu og þrír“) o.s.frv.

3
Gæta þarf að rithætti orðanna, m.a. hvort ritað er ei eða ey:
Ofviðrið geisaði; farsóttin geisaði; styrjöldin geisaði.
Bíllinn geystist fram úr; hann fór geysilega hratt.

4
Nöfn á landshlutum og íbúum landshluta skal rita með stórum upphafsstaf: Suðurland, Sunnlendingur .
Atviksorðið sunnanlands og lýsingarorðið sunnlenskur skal rita með litlum upphafsstaf.

5
Samkvæmt íslenskum réttritunarreglum er ritaður stór stafur aðeins í fyrsta orðinu þegar sérnöfn eru fleiri en eitt orð, t.d. Norræni fjárfestingarbankinn (ekki „Norræni Fjárfestingarbankinn“), Sögur herlæknisins (ekki „Sögur Herlæknisins“) o.s.frv.
Þetta á þó ekki við ef seinna orð í heitinu er sjálft sérnafn, t.d. Háskóli Íslands (ekki „Háskóli íslands“) o.s.frv.

6
Opinberar reglur um stafsetningu og greinarmerki má finna á þessum vefsíðum:
Auglýsing um íslenska stafsetningu (nr. 132/1974, með innfelldum breytingum skv. auglýsingu nr. 261/1977) og Auglýsing um greinarmerkjasetningu (nr. 133/1974, með innfelldum breytingum skv. auglýsingu nr. 184/1974). ) Ritreglur Íslenskrar málstöðvar eru byggðar á þessum auglýsingum.

Setningarleg atriði

1
Hvort er réttara að segja: Fjöldi manna er viðstaddur eða Fjöldi manna eru viðstaddir?
Svar: Fjöldi manna er viðstaddur. Aðalorðið er fjöldi, fjöldi er viðstaddur.
Þetta er sambærilegt við: Bíll hjónanna er rauður. Aðalorðið er bíll, bíllinn er rauður.
Milljónir manna eru fátækar (ekki fátækir). Aðalorðið er milljónir, milljónir(nar) eru fátækar.
Hluti þátttakenda fékk verðlaun. Aðalorðið er hluti, hluti fékk verðlaun.
Hins vegar: Nokkrir þátttakenda fengu verðlaun. Aðalorðið er hér nokkrir, nokkrir fengu verðlaun.

2
Fólk lendir stundum í vanda við að velja milli eintölu og fleirtölu sagnar í setningum á borð við þessa: Rannsóknartengsl og tilvist vísindastofnana kallar/kalla?? á meiri samskipti við útlönd.
Valið virðist standa hér milli þess að sögnin sé í eintölu, sbr. orðið tilvist, eða í fleirtölu, sbr. orðið rannsóknartengsl (eða eins konar „samlagningu“ beggja orðanna).
Leiki vafi á í dæmum af þessu tagi er oft best að miða við þann lið sem næstur er sögninni. Í þessu dæmi er það orðið tilvist : Rannsóknartengsl og tilvist vísindastofnana kallar á meiri samskipti við útlönd. Eins mætti snúa við röð liðanna og hafa þá sögnina í fleirtölu: Tilvist vísindastofnana og rannsóknartengsl kalla á meiri samskipti við útlönd.

3
Þess eru mörg dæmi í íslensku að sama sögnin sé ýmist notuð persónulega eða ópersónulega eins og það er nefnt. Tökum sem dæmi sagnirnar bera og taka.
Við berum byrðarnar. Þú berð þig vel. Kýrnar báru.
Þær tóku honum vel. Við tókum töskurnar. Báturinn tók niðri.

Beyging sagnarinnar lagar sig hér að gerandanum; sögnin er notuð persónulega.

Í svonefndri ópersónulegri notkun stendur sögnin hins vegar ávallt í þriðju persónu eintölu:
Söguna bar á góma. Bílinn bar hratt yfir. Hólinn ber í hnjúkinn. Mér ber að hlýða. Snjóinn tekur fljótt upp.

4
Meira um persónulega og ópersónulega notkun sagna:
Þeir hertu upp hugann.
Við reyndum að lægja deilurnar.
Þið lengduð veginn.

Beyging sagnarinnar lagar sig hér að gerandanum; sögnin er notuð persónulega.

Nú sjáum við sömu sagnir notaðar ópersónulega og þær eru þá alltaf í þriðju persónu eintölu:
Vindinn herðir. Vindana herðir.
Vindinn lægir. Vindana lægir.
Daginn lengir. Dagana lengir.

5
Gott er að gæta samræmis í notkun nútíðar og þátíðar í aðal- og aukasetningum.

Hann leggur til að þeir fari í verkfall.
Hér eru báðar sagnirnar í nútíð (leggur, fari).

Hann lagði til að þeir færu í verkfall.
Hér eru báðar sagnirnar í þátíð (lagði, færu).

Hann hefur lagt til að þeir fari í verkfall. Hann hafði lagt til að þeir færu í verkfall.
Nútíð (fari) fylgir núliðinni tíð (hefur lagt) og þátíð (færu) fylgir þáliðinni tíð (hafði lagt).

6
Í vönduðu máli eru orðin eitthvað og eitthvert ekki notuð á sama hátt (eitthvað er sjálfstætt en eitthvert stendur með einhverju nafnorði).
Þarna er eitthvert skip. Þarna er eitthvað.
Ég sé eitthvert fólk þarna. Ég sé eitthvað þarna.
Eitthvert samkomulag var gert. Þau komu sér saman um eitthvað.

Gerður er sams konar greinarmunur í notkun orðanna nokkuð og nokkurt.
Nokkurt ósamkomulag var meðal fundarmanna. Nokkuð vantaði upp á að allir væru sáttir.

7
Lítum á eftirfarandi setningar:

Þær hafa farið til Húsavíkur. Sigríður er ein þeirra. Sigríður er ein þeirra sem hafa farið til Húsavíkur.
Í síðustu setningunni er fleirtala: ... sem hafa farið ... - fremur en að segja „... sem hefur farið til Húsavíkur“ - enda er vísað til fleirtölufornafns (þeirra ) en ekki til Sigríðar einnar.

Þeir skoðuðu húsið. Sigurður er einn þeirra. Sigurður er einn þeirra sem skoðuðu húsið.
Í síðustu setningunni er fleirtala: ... sem skoðuðu húsið - fremur en að segja „... sem skoðaði húsið“ - enda er vísað til fleirtölufornafns (þeirra ) en ekki til Sigurðar eins.

8
Þolmynd er oft notuð þegar lögð er meiri áhersla á þolanda en geranda. Þolandinn verður þá frumlag en gerandi er ekki endilega nefndur, t.d.:
Ég var laminn. Mér var hrint.
Sögnin lemja stýrir þolfalli (t.d. lemja mig ) í germynd en það verður að nefnifalli í þolmynd (sbr. Ég var laminn).
Sögnin hrinda stýrir þágufalli (t.d. hrinda mér) í germynd og það heldur sér í þolmynd (sbr. Mér var hrint).

Þeirrar nýbreytni er tekið að gæta að sagt er t.d.
„það var lamið mig“ í stað ég var laminn,
„það var hrint mér“ í stað mér var hrint o.s.frv.
Rétt er að forðast þennan nýja málsið enda er hann óþarfur og brýtur gegn íslenskri málhefð.

9
Í setningum eins og þeim sem hér fara á eftir velja flestir annaðhvort orðalag með á ... (kemur/var) , t.d.
keppnin hefst á laugardaginn, keppnin hefst á laugardaginn kemur,
keppnin hófst á laugardaginn, keppnin hófst á laugardaginn var

- eða nota orðalag með næsti/síðasti, t.d.
keppnin hefst næsta laugardag,
keppnin hófst síðasta laugardag.

Oft fer betur á því að velja setningar með á, sbr. fyrri dæmin. Fleiri dæmi:
Hún tekur prófið á laugardaginn, hún tekur prófið á laugardaginn kemur,
hún tók prófið á laugardaginn, hún tók prófið á laugardaginn var.

10
Fornöfnin hvor og hver eru gjarna spyrt saman við fornafnið annar, t.d. þeir ásökuðu hvor annan - þá er um tvo að ræða - eða þeir ásökuðu hver annan - þar sem þrír eða fleiri eiga hlut að máli. Hvor eða hver á að standa í sama falli og gerandinn, venjulega nefnifalli, en annar stendur sjaldan eða aldrei í nefnifalli, heldur einhverju aukafallinu.
Fleiri dæmi:
Þeir litu hvor á annan. Þeir hjálpuðu hver öðrum. Þær hjálpuðu hver annarri.Þau hjálpuðu hvert öðru. Þeir söknuðu hver annars. Þær söknuðu hver annarrar