Heimur handritanna

Frá ráðstefnunni Heimur handritanna. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir Ráðstefnan Heimur handritanna var haldin í Norræna húsinu dagana 10.-12. október og er meðal þeirra viðburða sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum efnir til á þessu ári til að minnast þess að 350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara. Heiðursgestur var rithöfundurinn Arnaldur Indriðason sem flutti upphafserindi. Hann talaði á íslensku en ráðstefnan fór að öðru leyti fram á ensku.

Þátttaka var mjög góð og sóttu þingið um 170 manns, þar af um þriðjungur erlendis frá. Frá ráðstefnunni Heimur handritanna. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir Sextán fyrirlestrar voru haldnir í 8 málstofum og var í hverri þeirra athyglinni beint annars vegar að handritum úr safni Árna og hins vegar að handritum úr öðrum söfnum. Í fyrstu málstofunni fjallaði Már Jónsson prófessor í sagnfræði um handritasafnarann Árna og breski fræðimaðurinn Richard Sharpe frá Oxford um þá sem söfnuðu írskum handritum um svipað leyti. Niðurstaða hans var m.a. sú að hefðu Írar átt einhvern sem safnað hefði handritum af jafn brennandi áhuga og Árni Magnússon væru til mun fleiri dýrmæt írsk handrit en raun ber vitni.

Frá Kaupmannahöfn kom Alex Speed Kjeldsen sem nýlega hefur lokið við doktorsritgerð um handritið Morkinskinnu. Hann ræddi í fyrirlestri sínum um hvernig nota má skriftarfræði til að aldursgreina norræn handrit. David Ganz – þekktur breskur handritafræðingur – talaði í sömu málstofu um hugtök sem notuð voru á miðöldum um leturgerðir. Åslaug Ommundsen er ung fræðikona frá Bergen sem rannsakað hefur latnesk handritabrot í safni Árna Magnússonar. Hún stýrir nú rannsóknarverkefni við háskólann í Bergen sem ætlað er að sýna fram á hvernig handritabrotin geta varpað ljósi á norræna ritmenningu og handritamiðstöðvar á miðöldum, einkum á Íslandi og í Lundi í Svíþjóð. Mariken Teeuwen hollenskur miðaldafræðingur kynnti í sömu málstofu rannsóknarverkefni sem beinist að handritum sem eru skrifuð á latínu en eru með athugasemdum og skýringum á öðrum tungumálum milli lína og á spássíum.

Á þinginu var reynt að nálgast handritin frá mörgum sjónarhornum, t.d. var fjallað um hvernig nýta má handrit sem heimildir um tónlistariðkun fyrr á tímum. Ráðstefnan Heimur handritanna í Norræna húsinu 10.-12. október 2013 Tónlistarfræðingurinn Susan Rankin frá Cambridge fjallaði um nótnaskrift í miðaldahandritum en Árni Heimir Ingólfsson um íslensk handrit sem heimild um íslenska tónlistarsögu. Bandaríski listfræðingurinn Jeffrey Hamburger frá Harvard háskóla fjallaði um gríðarlega fallegar myndskreytingar í þýskum miðaldahandritum sem nunnur skrifuðu og Guðbjörg Kristjánsdóttir um íslensku teiknibókina. Aðrir fyrirlesarar voru Margaret Ezell frá Texas, Jürg Glauser frá Sviss, Peter Springborg fyrrverandi forstöðumaður Árnastofnunar í Kaupmannahöfn og Per Cullhed frá Uppsölum.

Frá ráðstefnunni Heimur handritanna. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir Þinginu lauk með því að Svanhildur Óskarsdóttir sviðstjóri handritasviðs Árnastofnunar og Matthew Driscoll yfirmaður Árnasafns í Kaupmannahöfn fjölluðu um nokkur athyglisverð handrit úr safni Árna Magnússonar, bæði í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Eftir hverja málstofu gafst þátttakendum góður tími til að spyrja spurninga og urðu oft áhugaverðar umræður. Þess má geta að um 30 nemendur í Medieval Icelandic Studies við Háskóla Íslands tóku þátt í ráðstefnunni og aðstoðuðu skipuleggjendur hennar með ýmsum hætti.

Þátttakendur nutu gestrisni borgarstjóra sem tók á móti þeim í Ráðhúsi Reykjavíkur fyrsta daginn, bauð upp á veitingar og ávarpaði þá stuttlega.
Frá móttöku borgarstjórans í Reykjavík, Jóns Gnarr, í Ráðhúsinu. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir Frá móttöku borgarstjórans í Reykjavík, Jóns Gnarr, í Ráðhúsinu. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir

Í lok málstofu um tónlist á föstudeginum komu Bára Grímsdóttir og Chris Foster fram og fluttu íslenska tónlist og sýndu jafnframt myndir sem tengdust efninu. Var þeim afar vel fagnað. Ráðstefnunni lauk með hátíðarkvöldverði á veitingastaðnum Nauthól. Á sunnudeginum 13. október var ráðstefnugestum boðið upp á dagsferð í Reykholt, að Húsafelli, Hraunfossum og til Þingvalla. Veður var mjög gott og tókst ferðin í alla staði vel.

Frá ráðstefnunni Heimur handritanna. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir Óhætt er að fullyrða að ráðstefnan hafi tekist vel og verið frábært tækifæri til að kynna fyrir erlendum fræðimönnum hið ómetanlega handritasafn Árna Magnússonar, kynnast handritum í erlendum söfnum og rannsóknum á þeim; skiptast á skoðunum, og ekki síst skapa nýjar hugmyndir að verkefnum og samstarfi í framtíðinni. Conference report in english

Opna myndaalbúm til þess að skoða fleiri myndir frá ráðstefnunni.