Orð og tunga

Efni tímaritsins og ritstjórnarstefna

Tímaritið birtir greinar á fræðasviði stofnunarinnar sem lúta að máli og málfræði.

Lögð er áhersla á greinar um orðfræði, þ. á m. nafnfræði og íðorðafræði, og greinar um orðabókafræði og orðabókagerð, sem og fræðilegar greinar um málrækt og málstefnu.

Sem dæmi má nefna greinar um tiltekin málfræðileg, málfélagsleg, nafnfræðileg eða orðabókafræðileg viðfangsefni; greinar um einstakar orðabækur eða tegundir orðabóka, íðorðasöfn eða aðrar handbækur; einnig greinar um einkenni og sögu íslensks orða- og nafnaforða eða afmarkaðs hluta hans, jafnvel einstök orð, þ. á m. nýyrði og annað sem lýtur að endurnýjun orðaforðans.

Greinar í tímaritinu eru ritrýndar. Það felur í sér að auk ritstjóra lesa a.m.k. tveir ónafngreindir sérfræðingar hverja grein. Í framhaldi af því metur ritstjóri hvort viðkomandi grein fellur innan efnissviðs ritsins og hvort hún stenst þær kröfur sem gerðar eru til greina sem þar eru birtar. Auk almennrar kröfu um fræðileg vinnubrögð, trausta röksemdafærslu og skýra framsetningu er ætlast til þess að höfundar fylgi reglum tímaritsins um frágang.

Auk ritrýndra greina eru teknir til birtingar ritdómar og smágreinar á sviði hagnýttrar íslenskrar málfræði, svo sem um málnotkun og frágang, og eru þessir þættir tímaritsins auðkenndir. Ritrýndar greinar eru birtar í efnisþættinum Greinar og fellur langstærstur hluti tímaritsins þar undir. Ritdómar eru síðan auðkenndir sem slíkir og smágreinar á sviði hagnýttrar íslenskrar málfræði falla undir efnisþáttinn Málfregnir.Skil og birting greina
Tímaritið kemur út einu sinni á ári, að jafnaði í mars/apríl.

Frestur til að skila handritum greina, sem óskast birtar í 21. árgangi (2019), er til 24. september 2018 (ath. framlengdan tíma!).

Með því að senda inn handrit lýsir væntanlegur höfundur sig samþykkan því fyrirkomulagi að greinin verði birt samtímis á prenti og í rafrænni gerð.

Utanáskrift og netfang ritstjóra er:

Helga Hilmisdóttir
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Orðfræðisvið
Laugavegi 13
IS-101 Reykjavík
 
Netfang: helgahi [hja] hi.is


Höfundur má búast við svari eigi síðar en 1. nóvember, ásamt skýringum og athugasemdum eftir atvikum, um það hvort grein fæst birt í næsta hefti. Endanleg gerð greinarinnar, þar sem eðlilegt tillit hefur verið tekið til athugasemda ritstjóra og yfirlesara, skal að jafnaði berast fyrir 1. desember.