Orð og tunga

Leiðbeiningar um frágang greina

 
Greinar skulu að jafnaði ekki vera lengri en 10–15 síður í handriti en geta orðið allt að 20 síður ef efni og aðstæður krefjast.

Letrið á greininni á að vera Times New Roman og leturstærðin 12 pt., sú sama á fyrirsögnum og meginmáli. Því verður breytt í umbroti. Spássíur eiga að vera stilltar á 2,5 cm á alla fjóra vegu og línubil á 1,5. Neðanmálsgreinum skal stillt í hóf en sé þeirra þörf eiga þær að vera með letrið Times New Roman og leturstærð 10 pt., einfalt línubil.

Greinin þarf að berast í endanlegri gerð sem viðhengi í tölvupósti. Æskilegt er að pdf-skjal fylgi ef höfundur vill skýra sérstaklega hvernig hann hugsar sér útlit greinarinnar, t.d. að því er varðar sértákn og staðsetningu taflna og mynda.

Stærð taflna og mynda verður að miðast við að þær (ásamt myndatexta) rúmist á 12x17 cm stórum leturfleti.

Dæmi, þ.m.t. (stuttar) dæmasetningar, inni í meginmáli eiga að vera skáletruð. Það á einnig við um bókartitla, bæði í meginmáli og heimildaskrá. Töflu- og myndatextar eiga að vera beinletraðir en fyrirsögn þeirra skáletruð. (Dæmi: Tafla 1. Algengustu orðmyndirnar í gagnasafninu.)

Feitletur á einkum við þegar leggja þarf sérstaka áherslu á orð eða auðkenna veigamikil hugtök sem til umfjöllunar eru. Feitletur skal nota sparlega.

Aðrar leturbreytingar skal einungis nota ef brýna nauðsyn ber til og því aðeins að þær gegni augljósu hlutverki í textanum.

Merking orða eða orðasambanda skal afmörkuð með einföldum gæsalöppum ofan línu (t.d. kani ‘sleði’) en beinar tilvitnanir inni í meginmáli með venjulegum (íslenskum) gæsalöppum, t.d.: ... eins og NN segir í grein sinni þá ,,er þetta ný merking“ (1990:47) ...

Í endanlegri gerð greinarinnar skal nafn höfundar standa fremst í sérlínu og síðan heiti greinar í annarri; þar á eftir undirtitill í sérlínu þar sem það á við. Hafa skal þrjú línubil á milli nafns höfundar og titils og jafn langt bil á eftir titlinum (eða undirtitli) áður en textinn hefst. Engin þessara lína skal hafa aðra leturstærð eða -gerð en textinn og þær eiga ekki að vera miðjaðar í handritinu.

Greininni skal skipt í númeraða kafla og hverjum þeirra má svo skipta í undirkafla eftir því sem þörf krefur. Kaflarnir skulu fá lýsandi heiti auk númers. Bygging greinar gæti þá verið eitthvað á þessa leið:

Nafn höfundar
Titill greinar
1 Inngangur
2 XXXFyrirsögnXXX
2.1 xxxfyrirsögnxxx
2.2 xxxfyrirsögnxxx
2.3 xxxfyrirsögnxxx
3 YYYFyrirsögnYYY
3.1 yyyfyrirsögnyyy
3.2 yyyfyrirsögnyyy
3.3 yyyfyrirsögnyyy
4 Lokaorð
Heimildir
Lykilorð
Útdráttur
Fullt nafn höfundar, vinnustaður/starfsstöð, utanáskrift, netfang
 

Ef nauðsyn krefur má bæta við öðru lagi undirkafla, t.d. 2.1.1, 2.1.2 o.s.frv. Gert er ráð fyrir því að allar greinar hefjist á inngangi þar sem m.a. er skýrt frá meginviðfangsefni greinarinnar, efnistökum, efnisskipan og helstu niðurstöðum. Sömuleiðis á greinum að ljúka með niðurlagskafla þar sem ályktanir og niðurstöður eru dregnar saman.

Greinaskil skal auðkenna með auðri línu og sömuleiðis á að vera auð lína á undan og á eftir kaflaheiti. Hins vegar skal hvergi draga inn línur, hvorki í upphafi kafla né á eftir greinaskilum.

Töflur og myndir skulu númeraðar og vísað til þeirra í meginmálinu með númeri (t.d. ,,eins og sjá má í Töflu 1“ en ekki t.d. ,,eins og sjá má í töflunni hér á undan“). Þeim skal jafnframt fylgja texti sem skýrir efni töflunnar eða myndarinnar (jafnvel þótt frekari útskýringar séu í meginmáli). Nauðsynlegt er að marka greinilega fyrir þeim stað í textanum þar sem hentast þykir að koma slíku efni fyrir (þótt umbrotið ráði útlitinu að lokum); form slíkra merkinga getur t.d. verið: ...[tafla 1 komi hér] ...

Neðanmálsgreinar skulu númeraðar frá upphafi til enda greinarinnar en fjölda þeirra og lengd skal stillt í hóf.

Greininni þarf að fylgja stuttur útdráttur (hámark 200 orð) þar sem fram kemur viðfangsefni greinarinnar, kjarninn í umfjöllun höfundar (sjónarhorn, helstu rök o.þ.h.) og meginniðurstöður. Höfundar eru beðnir að skila útdrætti bæði á íslensku og ensku. Gert er ráð fyrir að annar útdrátturinn birtist með greininni í tímaritinu (á öðru máli en greinin sjálf) og útdrættirnir á báðum málunum á vefsíðu stofnunarinnar. Jafnframt eru höfundar beðnir að velja fáein meginhugtök sem lykilorð (á íslensku og ensku) sem lýsa efni greinarinnar að þeirra mati og ættu 3–5 orð eða orðasambönd að duga að jafnaði. Lykilorðin eru birt í lok greinarinnar og eru einkum notuð til að lykla hana í skrám bókasafna. Einnig þarf fullt nafn höfunda(r), nafn stofnunar sem hann/þeir starfa(r) við (ef það á við), heimilisfang og netfang að fylgja.


Tilvitnanir, tilvísanir og heimildaskrá
Stuttar beinar tilvitnanir inni í textanum skal auðkenna með gæsalöppum en lengri tilvitnanir skal setja í sérstakar efnisgreinar, afmarkaðar með inndrætti og auðri línu á undan og eftir. Vísa skal til heimildar við óbeinar jafnt sem beinar tilvitnanir og tilvísanirnar eiga að vera í sviga innan meginmáls. Tilgreina skal nafn höfundar (eða heiti verks, t.d. orðabókar), útgáfuár rits eða greinar og eftir atvikum blaðsíðutal sem vísað er til. Dæmi um tilvísanir:

1. ...NN (1999:10–12) heldur því fram að ...
2. ...(sjá NN 1999:333)...
3. ...eins og NN (1999) hefur gert grein fyrir... o.s.frv.


Heiti orðabóka(r) má skammstafa og skal skammstöfunin þá skýrð í heimildaskrá.

Í heimildaskrá skal gefa nákvæmar upplýsingar um tilvitnuð rit — höfund, útgáfuár, titil bókar eða heiti greinar og rits sem hún birtist í ásamt upplýsingum um blaðsíðutal og árgang tímarits; jafnframt skal getið um útgáfustað og útgefanda bóka. Þegar vitnað er í heimildir á veraldarvef skal tilgreina nákvæma slóð.

Form heimildaskrár skal vera í samræmi við eftirfarandi dæmi:

Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans.

Bloomfield, Leonard. 1937. Notes on Germanic Compounds. Í: Mélanges linguistiques offerts à M. Holger Pedersen, bls. 303–307. Kaupmannahöfn: Levin & Munksgaard.

Guðrún Þórhallsdóttir. 2013. Analogical Changes in the History of Old Icelandic fela. Í: Adam I. Cooper, Jeremy Rau og Michael Weiss (ritstj.). Multi Nominis Grammaticus. Studies in Classical and Indo-European Linguistics in honor of Alan J. Nussbaum, on the occasion of his sixty–fifth birthday, bls. 7693. Ann Arbor / New York: Beech Stave Press.

Íslensk orðabók. 2002. (3. útg. aukin og endurbætt.) Ritstj. Mörður Árnason. Reykjavík: Edda.

Kristín Bjarnadóttir. 2001. Verbal Syntax in an Electronic Bilingual Icelandic Dictionary: A Preliminary Study. LexicoNordica 8:5–21.

Kristján Árnason. 2002. Upptök íslensks ritmáls. Íslenskt mál og almenn málfræði 24:157−193.

Nynorskordboka. www.nob-ordbok.uio.no

ROH = Ritmálssafn. www.arnastofnun.is/page/gagnasofn_ritmalssafn

Svensén, Bo. 2004. Handbok i lexikografi. Ordböcker och ordboksarbete i teori og praktik. Stockholm: Norstedts Akademiska Förlag.