Draumur um blauta og klakaða menn


Sögn Magnúsar Elíassonar
Winnipeg, EF 72/2

DRAUMUR UM BLAUTA OG KLAKAÐA MENN

[H.Ö.E.:] Dreymdi þá nokkuð fyrir veiði?

Ó, þá dreymdi nú fyrir öllu, fyrir byljum og veiðum og fráföllum. Ja, ég man eftir því veturinn sem að þeir fórust þarna úti á Vatninu, nálægt Moose-eyjunni. Það fórust þrír manns, Manni heitinn Magnússon og tveir Úkraníumenn. Ég man eftir því að við vórum þá að fiska norður í plássi sem að heitir Ling's Bay. Við vorum sjö saman í kofa og ég man eftir því að einn morguninn sagði Jón heitinn Melsteð, hann sagði: "Ég er hræddur um það hafi farist tveir menn á Vatninu, núna þessa viku." Og hann sagðist hafa dreymt það að það komu tveir menn inn í kofann og þeir vóru blautir og það var eins og það væri, það var eins og það væri, eins og það væru klakar á fötonum þeirra, að það væri klaki á fötonum þeirra. Og hann var náttúrlega, hann var náttúrlega skakkur í þessu. Hann hélt að það væri Ingi heitinn Sigurðsson og Ingi heitinn Jónsson. Hann sagði að það hefðu verið tveir en honum fannst endilega að það væru, væri sá þriðji. En hann sá hann ekki. Og svo kom náttúrlega fréttin að þeir höfðu, - þeir fundust tveir frosnir í hel þarna úti á Vatninu fyrir utan Moose-eyjuna.
Sá þriðji var lefandi og hann dó á leiðinni, á leiðinni inn. Nú, það náttúrlega mætti kalla að þetta var dálítið nákvæmur draumur. Þetta er nú held ég eitthvað sá nákvæmasti draumur sem að ég varð var við þegar ég var norður á Winnipegvatni.