Sagan um Búkollu


  Sögn Ólínu Benson
Betelheimilinu, Gimli, EF 72/10

SAGAN UM BÚKOLLU

Ég man, fyrsta sagan sem mér var sögð, - þá var ég sjö ára, og það var um Búkollu. Og ég man að ég var ósköp hrifin af henni. Það var sú fyrsta saga sem ég heyrði. Svo fór ég nú að heyra fleiri sögur og svo þegar ég las eitthvað, einhvurja gamla sögu, þá mundi ég það. Og hér kom um daginn kona norðan úr byggð og, - hva-, fyrirgefið þið, og tvær fullorðnar konur og þær heilsuðu mér svo alúðlega og sögðust muna svo eftir því hvað hefði verið gaman þegar ég hefði komið því ég hefði sagt þeim alltaf sögur.

[Olga:] Jahá.

[H.Ö.E.:] Hvað heita þær?

Ha?

[H.Ö.E.:] Hvað heita þær? Hvað heita þær?

Ó, þær eru norðan úr Víðirbyggðinni og það heitir, önnur þeirra heitir Guðrún en hin Jakobína. Þær eru úr Víðirbyggðinni. Ég held að þær eigi þar báðar heima. Og þær komu og gáfu hér ka-, öllum kaffi og góðar veitingar á, á heimilinu hérna um daginn. Ég bjóst ekki við að þekkja nokkra manneskju.

[H.Ö.E.:] En, eh, manstu nokkuð hérna eftir þessari Búkollusögu?

Já, það var nú svo ósköp, það var nú svo ósköp auðvelt.

[H.Ö.E.:] Þú vildir kannski lofa mér að heyra hana.

[Hlær] Ef að þú vilt [hlær].
Að það var karl, karl og kerling í koti sínu og þaug áttu einn son og þaug áttu eina rauða kú og hún hét Búkolla. Og strákurinn átti nú að passa Búkollu. Og hún mjólkaði ósköp vel, þessi Búkolla. Einu sinni þegar hann ke-, einn morgun þegar hann kemur út þá var Búkolla horfin úr fjósinu og hann fer inn til foreldra sinna og segir þeim þessa sögu. Svo að gamla konan se-, móðir hans, segir að hann megi til að fara og, og leita að henni. Jájá, hann vill gera það og hún býr honum til þrenna skó og, og hún býr honum til mikið nesti og segir honum að fara á stað. Og strákurinn leggur af stað og gengur lengi, lengi, þangað til hann kemur upp á háan hól. Þar sest hann niður og fær sér að borða og svo skiptir hann um skó, stendur upp og horfir yfir og segir: "Búkolla, Búkolla, Búkolla mín, gaulaðu nú, - baulaðu nú hvar sem þú ert."
Þá finnst honum hann heyra lengst í fjarlægð Búkollu baula. Svo hann fer í áttina og hann gengur lengi, lengi, þangað til hann kemur upp á annan hól og þá, þá fer hann þar upp og fær sér nesti og, og fær sér nýja skó. Og, og þegar, - alveg það sama. Hann fer upp á hæsta toppinn og segir: "Búkolla, Búkolla, Búkolla mín, baulaðu nú hvar sem þú ert." Þá heyrir hann að baulað er miklu nær.
Nú fær hann góða von um að hann muni finna Búkollu. Svo hann leggur á stað og heldur í áttina; kemur hann að stórum, stórum hól og þá fer allt eins. Hann fer upp á hólinn, borðar sitt nesti og fær sér nýja skó. Og svo þegar hann er búinn að því þá gengur hann hringinn í kringum hólinn og þá finnur hann og se-, segir: "Baulaðu nú hvar sem þú ert" og þá heyrir hann hún baular undir fótonum á honum. Og þá fer hann ofan og gengur í kringum hólinn og þá finnur hann dyr. Og hann opnar dyrnar og þar inni stendur reyndar Búkolla. Og hann verður nú heldur glaður og Búkolla verður ósköp, sýnist ósköp glöð að hann er kominn og hann tekur undir eins, - sker undir eins bandið sem hún er bundin með og leggur af stað með hana heim.
Jæja, nú eru þau búin að ganga nokkuð langa leið. Þá sér hann hvar kemur gríðarstór, hérna, risi á eftir þeim; tröllkarl eða risi. Og þá segir hann: "Hvað er nú til bragðs að taka, Búkolla mín?" Þá segir Búkolla: "Taktu hár af hala mínum og þá mun koma svo mikið vatn að enginn kemst yfir það nema fuglinn fljúgandi." Og hann gerir þetta og það kemur vatn fyrir aftan þau, á milli þeirra og, og tröllkarlsins. En tröllkarlinn hafði strák með sér, já. Og þegar að tröllkarlinn sér það þá segir hann: "Hlauptu heim og sæktu stóra nautið hans afa þíns til þess að drekka þetta vatn."
Nú heldur strákur áfram heim með Búkollu og, - svo allt í einu verður honum litið til baka, þá sér hann að, að tröllkarlinn hefur nálgast hann og hann nálgast hann mikið. Þá segir hann: "Búkolla, Búkolla, Búkolla mín, hvað á ég nú til bragðs að taka?"
Hún segir: "Taktu hár af hala mínum og leggðu á jörðina. Þá mun koma stór eldur og enginn kemst yfir það nema fuglinn fljúgandi." Og hann gerir það og þá kemur eldur upp og þaug, - hann heldur burtu frá eldinum. Og þegar ri-, risinn eða tröllkarlinn sér þetta þá segir hann við strákinn: "Komdu með, með stóra nautið hans afa þíns og láttu hann setja allt vatnið út úr sér þarna." Og kallinn, - og strákur gerir það. Hann, eh, hérna, stóra nautið spýtir út úr sér vatninu og slekkur eldinn. Og heldur áfram og þá segir strákur þe-, svo lítur hann við eftir nokkurn tíma og segir: "Ó, hann er kominn aftur! Hvað er nú til bragðs, bragðs að taka, Búkolla mín?"
"Taktu hár af hala mínum og leggðu á jörðina og þá kemur svo stórt fjall að enginn kemst í gegnum það, og enginn kemst yfir það nema fuglinn fljúgandi." Og hann gerir það og það kemur stórt fjall á milli þeirra og þegar að tröllkarlinn sér þetta þá segir hann við son sinn: "Farðu heim og sæktu stóra nafarinn hans afa þíns. Ég ætla að bora mig í gegnum, um fjallið." Og strákur fer heim og sækir, sækir nafarinn. Og karlinn fer, - og tröllkarlinn fer að bora. En rétt þegar hann er kominn inn í mi-, mitt fjallið þá smellur það saman svo að hann krossast alveg. En, en strákur kemst heim, alla leið og er, er svo glaður.
Jæja, og hann, nú setur hann Búkollu inn á básinn sinn og fer inn til foreldra sinna og segir þeim alla þessa sögu. Og þaug eru heldur en ekki glöð.
Jæja, næsta morgun fer drengurinn út til að, að gefa nú Búkollu hey og vatn. En hann kemur ekki inn svo að karl og kerling fara að, að leita að stráknum og fara út í fjós. Þá er engin Búkolla þar en þar, þar er strákurinn, sonur þeirra, og ljómandi falleg stúlka. Og þettað er þá kóngsdóttir sem að hafði verið sett í álög af einhvurjum tröllkarli sem að vildi fá hana en hún sagði: "Nei," hún vildi hann ekki. Og hann sagði hún kæmist aldrei úr þessum álögum nema því aðeins að einhvur gæti komist yfir allt þetta sem að þaug höfðu farið í gegnum. Og hún segir þeim að konungurinn, faðir sinn, eigi þarna ríki sem hún tiltekur og hún segir að þaug skuli öll koma þangað því faðir sinn sé búinn að láta leita um öll lönd og, og höf eftir sér.
Svo þetta verður, þaug fara öll og konungurinn verður svo glaður og hann lætur byggja alveg höll fyrir gömlu hjónin og, og, og hann tekur hérna strákinn son þeirra og dubbar hann upp og hann giftir hann dóttur sinni og svona endaði nú sagan af Búkollu.