350 ára afmæli Árna Magnússonar (1663 - 1730)

Árni Magnússon Þann 13. nóvember 2013 voru 350 ár liðin frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara. Þeirra tímamóta var minnst með ýmsum hætti á árinu, sjá hér fyrir neðan, en hátíðahöldin náðu hámarki á sjálfan afmælisdaginn. Hennar hátign Margrét Þórhildur Danadrottning heiðraði Íslendinga og stofnunina með því að vera viðstödd þá viðburði sem efnt var til þennan dag í minningu Árna og hans ómetanlega söfnunarstarfs. Handritasafn Árna er varðveitt sameiginlega af Íslendingum og Dönum og er ríflega helmingur þess í umsjá Árnastofnunar í Reykjavík.

  • Myndasafn
    heimsókn Danadrottningar og viðburðir sjálfan afmælisdaginn, 13. nóvember 2013

 

Fyrirlestur Árna Magnússonar í Hátíðasal Háskóla Íslands

Annette Lassen Dr. Annette Lassen, lektor við Kaupmannahafnarháskóla, hélt Árna Magnússonar fyrirlestur 13. nóvember í Hátíðasal Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn bar heitið Sagaer i samtiden: Árni Magnússons storslåede arv en þess má geta að Annette Lassen er ritstjóri nýrrar danskrar þýðingar allra Íslendingasagna sem kemur út á nýju ári.

 

Hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu

Eva María Jónsdóttir og Ólafur Egill Egilsson. Ljósmyndari: Gunnar Vigfússon Um kvöldið var hátíðardagskrá í Þjóðleikhúsinu með þátttöku íslenskra rithöfunda og listamanna. Þar komu fram margir helstu listamenn þjóðarinnar sem sýndu hvílíkt líf er í arfi handritanna; í skáldskap, myndlist, tónlist og kvikmyndum. Stjórnandi dagskrárinnar var Bergur Þór Ingólfsson. Hún var tekin upp og verður sýnd í Sjónvarpinu 1. desember 2013.


 

Hin fágæta Teiknibók — sýning og bók

350 ár eru liðin frá fæðingu Árna Magnússonar. Danadrottning var viðstödd hátíðahöldin 13. nóvember 2013. Á sýningunni í Gerðarsafni. Ljósmyndari: Arnaldur Halldórsson. Á afmælisdaginn var opnuð í Gerðarsafni, Kópavogi, nýstárleg sýning á handritum, þar sem hið dýrmæta handrit Teiknibókin er í forgrunni. Teiknibókin inniheldur safn fyrirmynda sem listamenn fyrri alda nýttu sér, t.d. er þeir lýstu handrit eða máluðu altarismyndir. Teiknibókin er ein af fáum teiknibókum frá miðöldum sem varðveist hafa í Evrópu og sú eina á Norðurlöndum. Sýningarstjóri er Guðbjörg Kristjánsdóttir listfræðingur. Sýningin verður opin til 2. febrúar 2014. Í tengslum við sýninguna gefur forlagið Crymogea út glæsilega bók Guðbjargar, Íslenska teiknibókin, með vönduðum myndum og ítarlegri umfjöllun um miðaldahandritið AM 673a III 4to (Teiknibókina svokölluðu) og listamennina fjóra sem komu að gerð
þess.

 

Heimur handritanna – alþjóðleg ráðstefna

Ráðstefnan Heimur handritanna var haldin í Norræna húsinu dagana 10.-12. október í tilefni ársins. Heiðursgestur var rithöfundurinn Arnaldur Indriðason sem flutti upphafserindi. Sextán fyrirlestrar voru haldnir í 8 málstofum og var í hverri þeirra athyglinni beint annars vegar að handritum úr safni Árna og hins vegar að handritum úr öðrum söfnum. Þátttaka var mjög góð og sóttu þingið um 170 manns, þar af um þriðjungur erlendis frá. Skoða myndasafn. Hlusta á erindin.

 

Handritin alla leið heim

Á afmælisárinu var lögð áhersla á að handritin í safni Árna komu víðs vegar að af landinu; þau voru skrifuð og lesin um allt land og má segja að hvert hérað geti státað af dýrgripi í Árnasafni. Gerðar voru eftirmyndir af sex handritum og þeim komið fyrir í héruðum í samvinnu við söfn og ábúendur á hverjum stað. Jafnframt var hverju handriti fengin fóstra, þjóðþekktur einstaklingur, sem lét sér annt um handritið, heimsótti það á Árnastofnun og kynntist efni þess, útliti og sögu með hjálp handritafræðings. Það kom svo í hlut fóstrunnar að fara með endurgerð handrits heim í hérað og opna sýninguna sem því er helguð.

 

Handritakort Íslands

Á afmælisárinu var útbúið Íslandskort með upplýsingum um merka staði tengda handritum. Handritakortið fæst í helstu bókabúðum.

 

66 handrit bókarkápa Ný sýnisbók handrita

Í tilefni dagsins gáfu Árnastofnanirnar í Reykjavík og Kaupmannahöfn og Bókaútgáfan Opna út veglega sýnisbók handrita sem ber heitið 66 handrit úr fórum Árna Magnússonar. Bókin er ríkulega myndskreytt og í hana skrifa 35 fræðimenn skemmtilega pistla um þær gersemar sem finna má í fjölbreyttu handritasafni Árna.

 

Góssið hans Árna á bók

Segja má að viðurkenning heimsins hafi fengist árið 2009 þegar handritasafn Árna var tekið upp á varðveisluskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Minni heimsins. Í tilefni af því efndi Árnastofnun til erindaraðar í Þjóðmenningarhúsinu undir heitinu Góssið hans Árna. Erindin úr henni koma út á bók á afmælisárinu.

 

Grunnskólar á landsbyggðinni

Í tilefni afmælisársins verður bryddað upp á nýmæli í safnkennslu stofnunarinnar með því að Svanhildur María Gunnarsdóttir safnkennari mun á árinu 2014 heimsækja skóla á landsbyggðinni og gefa þannig fleiri börnum kost á að kynnast handritaarfinum og söfnunarstarfi Árna.

Grunnskólanemar á handritasýningu stofnunarinnar í Þjóðmenningarhúsinu. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

 

Styrktaraðilar

Við þökkum fjölmörgu samstarfsaðilum á árinu og þeim sem styrktu verkefnið.