Ísmús

Ísmús – íslenskur músík- og menningararfur – er gagnagrunnur sem geymir og birtir á vefnum gögn er varða íslenska menningu fyrr og nú: hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir, handrit og texta. Verkefnið er í umsjá Tónlistarsafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Öllum er heimill aðgangur að Ísmús og efnið sem þar er birt má brúka til einkanota, miðla til vina og vandamanna og nota til kynningar, við kennslu og rannsóknir. Öll fjölföldun efnisins til útgáfu eða sölu er óheimil nema í samvinnu við eða með lyfir þess sem varðveitir frumgögnin.

Meðal þess efnis sem aðgengilegt er í Ísmús er þjóðfræðisafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Skrá yfir efni safnsins er þegar aðgengileg og þegar er hægt að hlusta á stóran hluta safnsins, en markmiðið er að allt efni safnsins verði aðgengilegt á þennan hátt.

Auk hljóðrita stofnunarinnar, er þar nú að finna myndir af nótum sem fundist hafa í handritum í handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, í Þjóðskjalasafni, Þjóðminjasafni og Árnasafni. Þá má hér nálgast ýmsar prentaðar bækur sem innihalda nótur eða hafa þýðingu á annan hátt fyrir þá sem rannsaka íslenska tónlist. Á Ísmús er einnig upplýsingaveita um kirkjuorgel á Íslandi og unnið er að leiðum til að veita aðgang að þjóðlagasafni séra Bjarna Þorsteinssonar á margvíslegan hátt.

Ísmús