LREC 2014 í Hörpu í maí 2014

Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús

 Níunda LREC-ráðstefnan verður haldin í Hörpu dagana 26.–31. maí. LREC (Language Resources and Evaluation Conference) er haldin annað hvert ár og er viðamesta máltækniráðstefna heims. Nú stefnir í að ráðstefnan verði álíka fjölmenn og stærstu ráðstefnur sem áður hafa verið haldnar í þessari röð, en undanfarið hafa þátttakendur verið um 1200. Þetta er því ein fjölmennasta ráðstefna sem haldin hefur verið á Íslandi.

Nýleg rannsókn sýnir að íslenska stendur verr að vígi innan tölvu- og upplýsingatækninnar en flest önnur Evrópumál og brýnt að grípa til aðgerða svo að hún verði gjaldgeng á þessu sviði í framtíðinni. Að öðrum kosti er hætt við að stöðu tungunnar í málsamfélaginu verði ógnað, notkunarsvið hennar þrengist mjög á næstu áratugum og hún eigi sér ekki langa framtíð sem aðaltungumál Íslendinga.

Máltækni er lykillinn að framtíð tungunnar og það er því mikill viðburður og fagnaðarefni að fá þessa ráðstefnu til landsins. Hingað til hefur hún alltaf verið haldin á suðlægum slóðum, yfirleitt í grennd við Miðjarðarhafið, en það er sérstakur heiður fyrir íslenska tungu og íslenska máltækni að Ísland skuli verða fyrir valinu þegar ráðstefnan kemur í fyrsta skipti til Norður-Evrópu.

Ráðstefnan verður án efa mikil lyftistöng fyrir íslenska máltækni og íslenskar málrannsóknir og skapar mörg tækifæri fyrir stúdenta og fræðimenn. Ráðstefnan er einnig frábær vettvangur fyrir íslenskt fagfólk og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni til að kynna sér nýjungar í máltækni og komast í samband við fremstu sérfræðinga heims á þessu sviði.

Alls verða hátt á áttunda hundrað verkefni kynnt á ráðstefnunni, ýmist með erindum eða veggspjöldum. Fjórir fyrirlestrar og allt að sjö veggspjaldasýningar eru í gangi í einu á aðalráðstefnunni sem stendur í þrjá daga, frá miðvikudegi til föstudags. Tvo daga á undan aðalráðstefnunni og einn dag á eftir eru haldnar 22 vinnustofur og 9 örnámskeið um margvísleg sérhæfð efni

Viðfangsefni ráðstefnunnar og vinnustofanna eru mjög fjölbreytt, þótt þau tengist yfirleitt hvers kyns rafrænum mállegum gögnum og vinnu með þau. Þar má nefna gerð orðabóka og orðasafna; uppbyggingu málheilda og textasafna; vélrænar og tölvustuddar þýðingar; gerð talgreina og talgervla; greiningu, samræmingu og útgáfu forntexta; gerð villuleitar- og leiðréttingarhugbúnaðar; smíði hvers kyns mállegra greiningarforrita; höfundarétt og lög um rafræn gögn; o.s.frv.

Að ráðstefnunni standa samtökin ELRA, European Language Resources Association, í samvinnu við Máltæknisetur (samstarfsvettvang Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum) og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Ráðstefnan er haldin undir verndarvæng UNESCO.

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu ráðstefnunnar, http://lrec2014.lrec-conf.org/en/.
Upplýsingar veita einnig:

Sigrún Helgadóttir, sigruhel@hi.is, s. 525-4434 / 864-7575
Eiríkur Rögnvaldsson, eirikur@hi.is, s. 525-4403 / 861-6417