Stefna stofnunarinnar um stuðning við íslenskukennslu við erlenda háskóla

 1. Stefnt er að því að efla þjónustu Stofnunar Sigurðar Nordals við kennslu í íslensku erlendis
 2. Stefnt er að því að bæta umsýslu sendikennslunnar með aukinni samvinnu milli stofnunarinnar og hugvísindadeildar.
 3. Stefnt er að því að nýta sem best alþjóðlega samninga milli Háskólans og háskóla erlendis til að efla íslenskukennslu erlendis.
 4. Stefnt er að því að efla norrænt samstarf á sviði kennslu Norðurlandamála erlendis og fræðslu um Norðurlönd.
 5. Stefnt er að því að efla sendikennsluna og bæta starfsaðstöðu og starfskjör sendikennara.
 6. Stefnt er að því að bæta undirbúning íslenskukennara erlendis.
 7. Stefnt er að því að efna árlega til sendikennarafunda.
 8. Stefnt er að því að koma á fjarkennslu í íslensku fyrir erlenda stúdenta.
 9. Stefnt er að því að efla gerð kennsluefnis í íslensku fyrir erlenda stúdenta.
 10. Stefnt er að því að efla sumarnámskeið í íslensku og veita fleirum tækifæri til að læra íslensku á sérhæfðum námskeiðum.
 11. Stefnt er að því að fjölga styrkjum til náms í íslensku og íslenskum fræðum.
 12. Stefnt er að því að auka samskipti Stofnunar Sigurðar Nordals við utanríkisþjónustuna og Bókmenntakynningarsjóð til að efla menningarkynningu erlendis.

Áhugi þeirra, sem ekki eiga íslensku að móðurmáli, á að læra íslensku er af mörgum toga. Erlendir fræðimenn hafa skoðað tungumálið sem viðfang rannsókna í málvísindum eða lagt stund á það til að geta lesið íslenskar bókmenntir á frummálinu. Fræðimenn í öðrum greinum en málvísindum og bókmenntum hafa lært málið til að geta stundað rannsóknir sínar á Íslandi eða á íslenskum viðfangsefnum. Erlendir stúdentar hafa stundað nám í íslensku í sambandi við rannsóknir í íslenskum fræðum eða til samanburðar við önnur germönsk mál. En stöðugt fleiri nema íslensku vegna þeirrar alþjóðavæðingarinnar, sem nú á sér stað í viðskiptum, og aukinna ferðalaga fólks. Hagkvæmt er því að kunna tungumálið sem þeir tala sem menn eiga viðskipti við. Þótt íslenska sé ekki þjóðtunga samkvæmt lögum er hún móðurmál stærsta hluta landsmanna. Stjórnvöld hafa stutt við íslenskt málræktar- og bókmenntastarf. Það leiðir af íslenskri málstefnu að eðlilegt er að styðja kennslu í íslensku sem öðru og erlendu máli og efla þýðingarstarf með því að mennta fólk til að þýða úr íslensku.

Um árabil hefur löggjafinn veitt fé til að styrkja kennslu í íslensku við erlenda háskóla. Á fjárlögum íslenska ríkisins fyrir 2004 var varið um 11 milljónum kr. til kennslu í íslensku erlendis, þar af var um 2.6 milljónum varið til lektorsstöðu við Lundúnaháskóla sem ríkissjóður greiðir að hálfu, 2.5 milljónum til lektorsstöðu við Humboldtháskóla og 1.5 milljónum til að efla íslensk fræði við Manitobaháskóla. Því sem þá var eftir var varið til að greiða launauppbót til kennara í íslensku við fjórtán aðra háskóla erlendis, veita bókastyrki og ferðastyrki, kosta árlegan kennarafund og veita íslensku sendikennurunum heimflutningsstyrki við starfslok erlendis. Nú styðja íslensk stjórnvöld reglubundna kennslu í nútímaíslensku við fimmtán erlenda háskóla, þ.e. í Björgvin, Gautaborg, Uppsölum, Helsinki, Kaupmannahöfn, Kíl, Berlín, Erlangen, München, Vín, Lyon, París, Caen, London og Winnipeg. Auk þess fá Cambridge-háskóli og Waseda-háskóli í Tókýó nokkurn styrk til námskeiðahalds í íslensku.

Samkvæmt samningi milli menntamálaráðuneytis og Háskóla Íslands annast Stofnun Sigurðar Nordals málefni sem varða kennslu í íslensku og íslenskum fræðum við erlenda háskóla. Er stofnuninni ætlað að hafa forgöngu um íslenskukennslu erlendis í samvinnu við aðila innan Háskóla Íslands sem utan. Tillögum og fyrirspurnum um stuðning við þessa kennslu skal beint til stofnunarinnar. 

Skrifstofa

1. Stefnt er að því að efla þjónustu Stofnunar Sigurðar Nordals við kennslu í íslensku erlendis.

Stofnunin leitast við að rækja þjónustuhlutverk sitt í þágu kennarastólanna erlendis, eiga frumkvæði að nýjungum í kennslustarfinu og sinna stjórnsýslu í málaflokknum eftir því sem fjárveitingar leyfa. Nauðsynlegt er að efla stofnunina til þessa verkefnis og gera henni fjárhagslega kleift að hafa frekara eftirlit með kennslunni en hingað til, bæði með meiri samskiptum við skólana sem sinna kennslunni og með því að safna saman og veita upplýsingar um kennsluna. Stofnunin mun búa til sérstakan upplýsingabækling um stuðning við íslenskukennslu erlendis. Þá mun stofnunin koma á umræðuvettvangi sendikennara í tengslum við heimasíðu sína. Einnig stefnir stofnunin að því að efla eftirlit með kennslunni og gera árlega könnun á hvernig kennslunni er háttað. Jafnframt vinnur stofnunin að því að auka upplýsingar um íslenskt mál og íslenskukennslu, m.a. með því að taka þátt í Evrópusamstarfi um upplýsingaveitur á netinu.

Stefnumótun og álitsgjöf

2. Stefnt er að því að bæta umsýslu sendikennslunnar með aukinni samvinnu milli stofnunarinnar og hugvísindadeildar.

Nefnd, sem í eiga sæti forstöðumaður stofnunarinnar og tveir fulltrúar íslenskuskorar hugvísindadeildar Háskóla Íslands, hefur verið komið á fót og fjallar hún um tillögur og fyrirspurnir sem bornar eru fram um íslenskukennslu erlendis. Stofnunin vinnur að framgangi tillagna nefndarinnar samkvæmt ákvörðun stjórnar. Fulltrúar íslenskuskorar í nefndinni geta veitt umsögn um hæfi umsækjenda um lausar sendikennarastöður sé þess óskað. Í slíkum tilfellum tekur forstöðumaður Stofnunar Sigurðar Nordals ekki þátt í ákvörðun nefndarinnar.

Samskiptasamningar

3. Stefnt er að því að nýta sem best alþjóðlega samninga milli Háskólans og háskóla erlendis.

Samstarfsnefndin um íslenskukennslu erlendis mun kosta kapps um að þeir möguleikar sem felast í fjölþjóðlegum samskiptaáætlunum og samstarfssamningum, sem Háskóli Íslands á aðild að, verði nýttir til að efla íslenskukennslu við erlenda háskóla með nemenda- og kennaraskiptum.

Norrænt samstarf um sendikennslu

4. Stefnt er að því að efla norrænt samstarf á sviði kennslu Norðurlandamála erlendis og fræðslu um Norðurlönd.

Stofnunin á aðild að Samstarfsnefnd um Norðurlandafræðslu erlendis. Nefndin fær fé til starfsemi sinnar frá Norrænu ráðherranefndinni. Nefndin hefur fylgst með þróun í kennslu Norðurlandamála í heiminum og hefur upplýst stjórnvöld um þróunina, m.a. með því að kosta úttektir á þessari kennslu. Nefndin hefur einnig fylgst með þróun í fjarkennslu Norðurlandamála. Þá styrkir nefndin sendikennara til að efna til menningarkynninga á þeim stöðum, þar sem þeir kenna, og stendur sjálf fyrir sendikennararáðstefnum. Jafnframt hefur nefndin styrkt kennslu í Norðurlandamálum í Norður-Ameríku og kynnt Norðurlönd í Japan. Nefndin stefnir að nánara samstarfi við Málráð Norðurlanda til eflingar kennslu í Norðurlandamálum í háskólum á Norðurlöndum og rannsókna í kennslufræði tungumála með þátttöku sendikennara. Nefndin mun einnig leggja áherslu á kynningu á samstarfi Norðurlanda á tungumálasviði, ekki síst til eflingar tungumálum sem tiltölulega fáir tala.

Sendikennsla

5. Stefnt er að því að efla sendikennsluna og bæta starfsaðstöðu og starfskjör sendikennara.

Nú styðja íslensk stjórnvöld kennslu í íslensku máli á sautján stöðum erlendis. Brýnasta verkefnið er að hækka fjárstyrkinn til þeirra skóla þar sem sendikennurunum eru boðin lökust kjör. Ef til vill væri best að gera samninga við þessa skóla um kennsluna og styrki til hennar. Einnig væri æskilegt að hækka bókastyrki til þeirra kennarastóla sem nú eru styrktir. Auk þess þarf að sjá til þess að þeir staðir, þar sem íslenskukennsla fer fram, eigi þess kost að fá heimsóknir fræðimanna og rithöfunda frá Íslandi. Jafnframt er æskilegt að fjölga þeim stöðum þar sem íslenskukennsla er styrkt, svo sem með því að styrkja kennslu sem þegar er til staðar í Greifswald, Poznan, Vilníus, Moskvu, Sofíu, Prag, Tókýó, Minneapolis og Madison.

Eftirtalin atriði skulu höfð til hliðsjónar þegar ákveðinn er stuðningur við kennslu í íslensku máli og íslenskum fræðum erlendis:

 1. lega skóla með tilliti til annarra staða þar sem íslenska er kennd;
 2. hugsanlegur nemendafjöldi og áhugi stjórnenda og kennara við skólann á kennslunni;
 3. aðstaða til íslenskukennslu á staðnum, svo sem námsfyrirkomulag, bókakostur skóla og       rannsóknaraðstaða;
 4. menningarsamskipti Íslands og þess lands þar sem skóli er;
 5. kostur á styrkjum til íslenskukennslu í viðkomandi landi.
Undirbúningur kennara

6. Stefnt er að því að bæta undirbúning íslenskukennara erlendis.

Starf íslenskukennara erlendis er einkum fólgið í því að kenna nemunum íslenska tungu og fræða þá um bókmenntir, sögu og íslenskt nútímaþjóðfélag. Kennararnir veita mörgum nemendum tækifæri til að læra íslensku í heimalandi sínu sem annars færu á mis við það og búa þá til frekara náms hér á landi, ef að því er stefnt og þess kostur. Jafnframt vinna þeir að margs konar menningarkynningu innan háskóla sem utan hver á sínum stað.

Kennarar, sem kenna íslenskt mál og íslensk fræði erlendis með stuðningi íslenska ríkisins, eru annaðhvort Íslendingar og útlendingar, sem hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem kennt er, eða íslenskir sendikennarar sem eru ráðnir til ákveðins tíma að háskólum erlendis. Að öðru jöfnu er æskilegra að íslenska ríkið veiti fjárstuðning til sendikennslu en til launa fastráðinna kennara. Áskilið er að kennararnir hafi háskólapróf í íslenskum fræðum. Æskilegt er að kennararnir hafi lokið námskeiði í kennslufræði íslensku sem erlends máls.

Stofnunin stefnir að því að skipuleggja fundi eða námskeið með verðandi sendikennurum áður en þeir halda til starfa en það hefur ekki verið gert hingað til. Handbók sendikennarans verður einnig endurskoðuð.

Lektorafundir

7. Stefnt er að því að efna árlega til sendikennarafunda.

Sendikennarafundir hafa verið haldnir árlega síðan á 8. áratugnum. Þeir eru vettvangur til að efla samstarf sendikennaranna og veita þeim upplýsingar um kennslunýjungar. Fundirnir eru nú haldnir þriðja hvert ár á Íslandi en annars á þeim stöðum erlendis þar sem kennsla í íslensku er studd. Á síðustu árum hefur verið leitast við að nota fundina til að þróa aðferðir kennaranna í íslenskukennslunni og veita þeim kennslufræðilegar upplýsingar. Er ætlunin að auka þennan þátt í dagskrá fundanna á næstu árum.

Fjarkennsla

8. Stefnt er að því að koma á fjarkennslu í íslensku fyrir erlenda stúdenta.

Á undanförnum árum hefur verið unnið að gerð sjálfsnámsefnis í íslensku fyrir erlenda stúdenta á netinu í samvinnu íslenskuskorar hugvísindadeildar, Stofnunar Sigurðar Nordals, Madisonháskóla í Bandaríkjunum og nokkurra háskóla í Evrópu. Stefnt að því að fjarkennsla á vegum hugvísindadeildar tengist slíku efni í framtíðinni.

Kennsluefni

9. Stefnt er að því að efla gerð kennsluefnis í íslensku fyrir erlenda stúdenta.

Mikill skortur er á námsefni í íslensku fyrir erlenda stúdenta þrátt fyrir að nokkuð hafi úr ræst á síðustu árum. Auk kennsluefnis á netinu er nauðsyn á góðum kennslubókum. Leitast verður við að styðja gerð kennslubóka sem taka tillit til aðstæðna við íslenskukennslu erlendis og taka mið af málasamanburði.

Sumarnámskeið

10. Stefnt er að því að efla sumarnámskeið í íslensku og veita fleirum tækifæri til að læra íslensku á sérhæfðum námskeiðum.

Stofnun Sigurðar Nordals og hugvísindadeild hafa gengist fyrir árlegum sumarnámskeiðum síðan 1989. Þá hefur stofnunin staðið fyrir námskeiði í íslensku með Minnesotaháskóla árlega síðan 2001. Loks hefur stofnunin annast íslenskukennslu fyrir ungmenni af íslenskum ættum sem taka þátt í svokölluðu Snorraverkefni. Aðsókn að sumarnámskeiðum hefur aukist jafnt og þétt. Stofnunin mun áfram leita leiða til að koma til móts við þann hóp stúdenta sem óskar eftir að taka þátt í sumarnámskeiðum, m.a. með fjarkennslu. Þá gekkst stofnunin fyrir sumarnámskeiði í miðaldafræðum á árunum 1997–2000. Í sambandi við M.A. nám í íslenskri miðaldafræði, þar sem kennslumálið verður enska, er ætlunin að efna til sumarnámskeiða. Stofnunin mun koma að skipulagi þeirra og annarra námskeiða í miðaldafræðum sem fyrirhuguð eru í samstarfi við norræna háskóla.

Styrkir

11. Stefnt er að því að fjölga styrkjum til náms í íslensku og íslenskum fræðum.

Menntamálaráðuneytið styrkti í nokkur ár nema sendikennara í íslensku til að taka þátt í sumarnámskeiðum á vegum stofnunarinnar. Vonast er til að framhald geti orðið á þessum styrkjum. Á grundvelli nýrra reglna fyrir stofnunina verður rætt við menntamálaráðuneytið um frekari umsjá stofnunarinnar með styrkveitingum til erlendra stúdenta sem stunda nám í íslensku og íslenskum fræðum hér á landi. Æskilegt er að fjölga þessum styrkjum.

Samstarf um menningarkynningu erlendis

12. Stefnt er að því að auka samskipti Stofnunar Sigurðar Nordals við utanríkisþjónustuna og Bókmenntakynningarsjóð til að efla menningarkynningu erlendis.

Sendikennarar erlendis sinna menningarkynningu hver á sínum stað. Til að bæta aðstöðu þeirra í þessum efnum og samræma krafta þeirra sem standa að menningarkynningu erlendis verður leitast við að efla samskipti Stofnunar Sigurðar Nordals við utanríkisþjónustuna og Bókmenntakynningarsjóð í því skyni að auka þekkingu og skilning á því starfi sem íslenskukennarar erlendis vinna að menningarkynningu.

Samþykkt af stjórn Stofnunar Sigurðar Nordals 5. apríl 2005